133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[15:14]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er allt spurning um forgang. Við höfum sett í forgang að lækka matvæli fyrir heimilin í landinu. Við höfum gert það síðustu fimm ár. Ríkisstjórnin kemur hér tveim mánuðum fyrir kosningar og ætlar að lækka þau í marsmánuði og hefur haft ellefu ár til þess. Ríkisstjórnin kemur núna rétt fyrir kosningar og gerir samkomulag við aldraða sem aldraðir eru hundóánægðir með, þ.e. lífeyriskaflann,. Hún kemur rétt fyrir kosningar alveg eins og hún gerði fyrir fjórum árum og skammtar lífeyrisþegum örlítið brot af því sem hún hefur tekið af þeim áður. Fyrst er tekinn af lífeyrisþegum stór hluti af þeirra framfærslu eða kjörum sem þeir ættu að hafa ef lífeyrir þeirra hefði haldið raungildi sínu frá 1995. Það eru 15–17 þús. kr. á mánuði sem af þeim hefur verið haft. Síðan á að rétta þeim lítilræði yfir borðið af því sem þegar hefur verið tekið. Þetta er ekki leið, herra forseti. Það er ekki bjóðandi lífeyrisþegum að haga sér svona gagnvart þeim.

Veit hæstv. ráðherra að kaupmáttur lífeyrisþega hefur aukist helmingi minna en t.d. þeirra sem eru á lágmarkslaunum? Af hverju er alltaf ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, á tekjulægsta fólkið í samfélaginu sem hefur þurft að sæta verulega aukinni skattbyrði í tíð þessarar ríkisstjórnar? Skattar hafa þrefaldast og stundum fjórfaldast hjá fólki með 130 þús. kr. í tekjur í tíð þessarar ríkisstjórnar. Af hverju er alltaf ráðist á þá sem minnst hafa?

Veit hæstv. ráðherra að með þessu er ríkisstjórnin vísvitandi að auka á þann ójöfnuð sem er í samfélaginu fyrir? Ríkisstjórnin gerir ekkert, hvorki í gegnum skattkerfið né gegnum almannatryggingakerfið til þess að leiðrétta með eðlilegum hætti þá sem verst standa í þjóðfélaginu og bæta þeim upp það sem af þeim hefur verið tekið til þess að reyna að jafna kjörin í landinu, til þess að reyna með þeim hætti sem þeir geta að taka á þeim ójöfnuði sem hefur vaxið stórlega í tíð þessarar ríkisstjórnar.