133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[15:16]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þingmál allra þingmanna stjórnarandstöðunnar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála. Eins og komið hefur fram í umræðunni eru lagðar til verulegar kjarabætur til lífeyrisþega. Þar er byggt ofan á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og fulltrúa eldri borgara. Ég verð að segja, eftir að hafa hlustað á þessa umræðu, að um þessi mál náðst ekki samkomulag. Að minnsta kosti halda eldri borgarar og fulltrúar þeirra því fram að þetta hafi ekki verið samkomulag. Þetta hafi verið yfirlýsing sem þeir skrifuðu undir vegna þess að þeim var stillt upp við vegg, ef þeir gerðu það ekki þá væri allt í uppnámi sem þeir voru búnir að ná fram varðandi hjúkrunarþáttinn.

Ég heyrði á hæstv. ráðherra að hún er ánægð með yfirlýsinguna. Það eru eldri borgarar ekki. Þeir hafa lýst yfir stuðningi við þingmálið sem við mælum fyrir hér. Við leggjum til að farið verði í að endurskoða almannatryggingalögin, þá helst lífeyriskaflann sem er náttúrlega orðið löngu tímabært að endurskoða. Það er búið að gera margar atrennur að því að endurskoða almannatryggingarnar frá 1971. Við búum við almannatryggingar sem eru í grunninn 36–37 ára gamlar. Þetta er orðið eins og bútasaumsteppi. Það eru komnar alls konar gloppur í kerfið eins og margoft hefur verið bent á og meira að segja í nefndarstarfinu sem hæstv. forsætisráðherra stýrði.

Ég vil nefna nokkur atriði sem snúa að þeim breytingum sem við leggjum til að gerðar verði nú þegar á kjörum eldri borgara. Við leggjum til að nýja tekjutryggingin, sem tekur að öllum líkindum gildi um áramótin eftir því sem yfirlýsing ríkisstjórnarinnar kveður á um, verði mun hærri en hjá ríkisstjórninni og eldri borgurum og öryrkjum. Ég ætla að minna á að þetta snýr ekki bara að öldruðum. Þetta snýr líka að öryrkjum, að þeim verði gefinn kostur á að auka tekjur sínar án þess að greiðslurnar frá Tryggingastofnun skerðist. Við leggjum til 75 þús. kr. strax um áramótin og við munum gera breytingartillögur í þá veru við mál ríkisstjórnarinnar.

Það að lífeyrisþegar geti verið virkir á vinnumarkaði skilar sér. Með 75 þús. kr. atvinnutekjur skilar það sér í skattpeningum inn til ríkissjóðs og fólk heldur betri heilsu með því að geta verið virkt á vinnumarkaði og félagslega virkt. Ég man eftir að Árbæjarsafn auglýsti eftir eldri borgurum til að sitja þar yfir sýningum og segja fólki frá gömlum þjóðháttum. Það kom enginn vegna þess að það skilaði sér ekkert í vasann af því sem þeir áttu að fá fyrir þetta, a.m.k. mjög lítið. Við gætum virkjað þann auð sem býr í eldri borgurum.

Mig langar að nefna vasapeningana. Ég hef iðulega talað um að það verði að breyta því vasapeningakerfi sem við búum við, þar sem þeir sem fara inn á hjúkrunarheimili eða dvalarheimili missa lífeyrisgreiðslur sínar og halda eftir vasapeningi sem eru 22 þús. kr. í dag. Þeir fengu enga kjarabót í júlí síðastliðnum. Við leggjum til að kjarabótin skili sér afturvirkt frá 1. júlí til þessa hóps og þær hækki um 50% meðan ríkisstjórnin leggur til 25% hækkun frá áramótum. Í raun er það niðurlægjandi fyrir þá sem eru á hjúkrunarheimilum að búa við vasapeningakerfið. Þetta er bara gamaldags, frá liðinni öld, að skammta vasapeninga til fólks þótt það missi heilsu og lendi inni á stofnun.

Við viljum að komið verði á sama kerfi og fyrir fatlaða, að fólk haldi greiðslum sínum og greiði síðan fyrir þá þjónustu sem það fær og að það hafi eitthvert val um þjónustu. Eins og við þekkjum vel er að þessu leyti allt of lítið val hvað varðar þjónustuna, t.d. böð. Við töluðum um þvottana í gær þar fólki er meira að segja mismunað innan hjúkrunarheimilanna vegna þess að sumir fá þvott á fatnaði sínum en aðrir ekki. Ég hef bent á að 22 þús. kr. vasapeningar dugi skammt ef þvo þarf alklæðnað, kannski mörgum sinnum á dag og senda allt í þvottahús úti í bæ. Þarna þarf að taka á og gera aldraða, þótt þeir missi heilsuna, fjárhagslega sjálfstæða.

Við leggjum til að afnumin verði að fullu tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka. Það er búið að berjast fyrir þessu mjög lengi. Öryrkjadómurinn, á sínum tíma, snerist um að tekjutryggingin væri óháð tekjum maka. Niðurstaða hans var sú að fara ætti þessa leið. En enn þann dag í dag er verið að tekjutengja lífeyrisgreiðslur við tekjur maka. Auðvitað á þetta að vera einstaklingsbundinn réttur eins og atvinnuleysisbætur. Þessu viljum við koma á strax.

Ég vil nefna annað, þ.e. að við leggjum til að öryrkjar haldi aldurstengdri uppbót þegar þeir fara á ellilífeyri. Í dag missir öryrki örorkuuppbótina þegar hann verður 67 ára. En útgjöld hans minnka ekki. Hann á kannski lítinn sem engan rétt í lífeyrissjóði. Það er verið að bæta honum það upp með aldurstengdu örorkuuppbótinni að hann á lítinn rétt í lífeyrissjóði hafi hann orðið öryrki snemma. Þessum þáttum erum við að taka á vegna þess að þetta er réttlætismál og þarf að gera þetta strax. Ég furða mig á því að ríkisstjórnin skuli ekki taka á því nú þegar, að bæta kjör þessa hóps.

Við munum leggja til breytingartillögur þegar ríkisstjórnin leggur fram frumvarp sitt. Málið mun fara til heilbrigðis- og trygginganefndar þar sem ég á sæti. Við fulltrúar Samfylkingarinnar munum leggja fram breytingartillögur um bætt kjör lífeyrisþega í þá veru sem lagt er til hér í þessu máli.

Að lokum vil ég benda á að það er verulega mikilvægt að farið verði í þá vinnu sem við leggjum til, að reiknuð verði út neysluútgjöld lífeyrisþega þannig að hægt sé að miða greiðslur frá Tryggingastofnun við hvað það kostar að vera til og hafa misst starfsorku.

Virðulegi forseti. Ég mun koma að þessu máli í heilbrigðis- og trygginganefnd. Þar mun ég auðvitað taka á þessum þáttum. Við munum leggja fram breytingartillögur. En mig langar til að nefna í lokin, eins og bent var á fyrr í umræðunni, að þessar breytingar koma öllum öldruðum til góða, ekki síst fullorðnum konum sem eiga lítinn rétt í (Forseti hringir.) lífeyrissjóðum.