133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[15:38]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt mál þar sem stjórnarandstaðan sameinast um að bæta kjör þeirra sem hafa orðið eftir í samfélaginu í þeirri lífskjaraþróun sem orðið hefur á síðustu árum. En það er athyglisvert í þessari umræðu að annaðhvort láta stjórnarliðar sig vanta eða reyna að draga úr nauðsyn þessarar umræðu.

Staðreyndin er sú að á umliðnum árum hafa lífeyrisþegar og aldraðir dregist mjög aftur úr og misskipting í samfélaginu hefur aukist gríðarlega á sama tíma og hið opinbera hefur tekið til sín æ stærri hluta af þjóðartekjunum. Á þetta minntist einn ágætur þingmaður stjórnarliðsins og taldi að vegna þess að ríkið tæki til sín æ stærri hluta af þjóðarframleiðslunni væri samfélagsþjónustunni borgið. Svo er bara alls ekki, frú forseti, vegna þess að hið opinbera, sem stýrt er af Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, skiptir þessu misjafnt niður. Þriðji hver aldraður hefur t.d. úr lægri upphæð að spila en 120 þús. kr.

Manni finnst grátlegt að menn skuli ekki koma hér fram sameinaðir, ekki bara við í stjórnarandstöðunni, Frjálslyndi flokkurinn, Samfylkingin og Vinstri grænir, heldur einnig Framsóknarflokkurinn. Nei, í stað þess berst hann um á hæl og hnakka við að gera lítið úr þessum tillögum og veifar hér einhverri yfirlýsingu sem Framsóknarflokkurinn gerði í vor þegar hann stillti öldruðum upp við vegg og sagði: Ef þið látið ekki taka mynd af ykkur með þessu þá verða engar úrbætur.

Við ætlum svo sannarlega að gera betur í stjórnarandstöðunni vegna þess að þetta ástand er algjörlega ólíðandi. Hvað kostar þetta? Hvað kostar t.d. frítekjumarkið? Ef við skoðum tillögur eða yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 19. júlí sl. virðist ekki kosta mikið að leyfa gamla fólkinu að vinna. Þar koma fram útreikningar á kostnaði við að hækka frítekjumark upp í 200 þús. kr. sem ríkisstjórnin þráast algjörlega við að gera og vill ekki lyfta því upp fyrr en árið 2009. Það kostar 142 milljónir, útreiknað af ríkisstjórninni. Það eru nú öll ósköpin. Mér finnst að menn ættu að skoða þessa tölu og sjá þá að þetta er ekki há upphæð. Ég er sannfærður um að þetta kostar ekki eina einustu krónu ef tekið er með í reikninginn að greiddir verði skattar af þeim tekjum sem eldra fólk vinnur sér inn, þetta mun einnig koma sér vel fyrir lífeyrissjóðina vegna þess að það mun eflaust spara greiðslur og líka gera lífið skemmtilegra. Við flytjum inn vinnuafl til þess að taka þátt í atvinnulífinu en á sama tíma komum við í veg fyrir að fólk vinni sér inn tekjur, eldra fólk. Þetta er alveg með ólíkindum. Maður spyr sig: Á hvaða vegferð eru þessir flokkar?

Í fyrra vorum við akkúrat á sama tíma að ræða sparnað hjá ríkisstjórnarflokkunum. Þá höfðu þeir sameinast um að spara í bílastyrk til gamla fólksins. Núna virðast þeir ekki sjá þessa tillögu sem við leggjum fram. Það er ekki einungis sátt meðal okkar í stjórnarandstöðunni um tillöguna heldur er ég viss um að allur meginþorri almennings getur stutt það að gera eigi betur við þá sem hafa byggt um samfélagið. Maður botnar í rauninni ekkert í því að ríkisstjórnarflokkarnir skuli ekki koma með jákvæðara viðmót til þessara tillagna.

Það var reiknað út í yfirlýsingunni, sem vitnað hefur verið til sem samkomulags og birtist í júlí, að þetta muni kosta ríkissjóð gríðarlegar upphæðir. En nú hefur hagfræðingur eldri borgara reiknað út að eftir u.þ.b. ár muni eldri borgarar verða nánast jafnsettir og áður, þ.e. ef verðbólgan æðir áfram með þeim hraða sem Seðlabankinn hafði spáð fyrir um séu eldri borgarar jafnsettir og áður. Ég held að það sé líka kominn tími til að bæði eldri borgarar og öryrkjar vari sig á slíkum yfirlýsingum, vari sig á svona yfirlýsingum sem koma ári fyrir kosningar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við sjáum að menn koma ári fyrir kosningar með slíkt. Frægasta dæmið er auðvitað þegar handsalaður var í Þjóðmenningarhúsinu samningur við öryrkja um þá sem yrðu öryrkjar ungir en var síðan svikinn um leið og búið var að telja upp úr kjörkössunum.

Ef fólk vill raunverulegar úrbætur í kjörum aldraðra, og einnig að leyfa eldri borgurum að vinna án þess að teknar séu nánast 8 eða 9 krónur af hverjum 10 krónum sem þeir vinna sér inn, þá á fólk að sameinast um að velta þessari ríkisstjórn úr sessi. Það er löngu orðið tímabært, þetta er ríkistjórn sem hefur staðið fyrir ójöfnuði samtímis því að taka til sín æ meira af þjóðartekjunum. Svo sólundar hún öllu í vitleysu og ef taka á upp einhverjar hugsanlegar sparnaðaraðgerðir þá er það gert annars vegar í bílastyrk til eldri borgara eins og í fyrra og hins vegar reglulega í vegamálunum, en síðan er bætt í skömmu fyrir kosningar.

Aðalatriðið er að hér er um tillögu að ræða, sem við í stjórnarandstöðunni flytjum og sameinumst um, sem mun gera kjör aldraðra betri og ég er sannfærður um að það er mikil sátt um það í samfélaginu. Fólk vill ekki það ástand sem nú ríkir.

Einhvern tíma í sumar lýsti einn ráðherra Framsóknarflokksins því yfir að það væri óþolandi að standa í þeim sporum að vera að deila við foreldra sína. Samt gerir hann samkomulag, og lætur taka mynd af sér, um einhverja yfirlýsingu sem bæta kjör aldraðra nánast ekki neitt. Þetta er stórundarlegt. Síðan kemur fólk hér upp í ræðustól og reynir að draga úr tillögum okkar og í stað þess að hrósa þeim og lyfta þeim upp og hrinda þeim í framkvæmd reyna stjórnarliðar að drepa þeim á dreif. En það sem verra er, sjálfstæðismenn láta sig algjörlega vanta í umræðuna og það sýnir náttúrlega, sem ætti að vera löngu vitað og aldraðir ættu að vera búnir að finna á eigin skinni eftir langa stjórnarveru Sjálfstæðisflokksins, að þeir hafa bara engan áhuga á þessum málum. Það er náttúrlega alvarlegt.

Fyrst og fremst ætti fólk að hugsa til þess að ef breytingar eiga að verða til hins betra í þessum málum þurfa breytingarnar að gerast í kjörklefunum. Við í Frjálslynda flokknum ætlum svo sannarlega að hrinda þessum málum í framkvæmd vegna þess að hér er um tillögur að ræða sem sjálf ríkisstjórnin hefur reiknað út að kosta nánast ekki neitt en hefur samt sem áður þráast við að fylgja eftir.