133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[15:46]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar fá að fylgja þessari tillögu til þingsályktunar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála úr hlaði. Hv. framsögumenn, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Steingrímur J. Sigfússon, hafa bæði gert grein fyrir þingsályktunartillögunni og farið vel yfir hana og svo hafa aðrir þingmenn gert.

Ég vil fyrst og fremst segja að með þingsályktunartillögunni erum við að leggja áherslu á sjálfstæði og sjálfstæðan fjárhag aldraðra. Við erum að reyna að fara inn í nýtt umhverfi í öldrunarmálum, þ.e. að draga úr dvalarheimils- og hjúkrunarvistun og fara inn í allt annað umhverfi. En til að það sé hægt verða kjör aldraðra að vera trygg. Það verður að vera tryggt að lífeyrisgreiðslur og almannatryggingagreiðslur standi undir framfærslukostnaði og geri fólki kleift að búa áfram sem sjálfstæðir einstaklingar í eigin húsnæði eða í leiguhúsnæði eða eftir því sem hverjum og einum hentar. Það á ekki að búa svo að öldruðum að þeir verði að hrekjast úr sjálfstæðri búsetu yfir í dvalarheimili eingöngu vegna þess að viðkomandi geti ekki lengur séð fyrir sér. En mörg dæmi eru um, eins og fram hefur komið hér á þinginu á undanförnum árum, að kjör margra eru orðin þannig að þeir standa ekki undir rekstri af eigin húsnæði eða leigu og fara því meira á þjónustu- og dvalarheimili en í raun þyrfti.

Það sem ekki kemur fram og er ekki tekið á í þingsályktunartillögunni er að verið að sveigja inn á nýja braut, að styrkja sjálfstæða búsetu aldraðra eins og þeir óska sjálfir. En þá þarf fyrir utan það að tryggja eigin fjárhag, að tryggja félagslegu þjónustu og það umhverfi sem styrkir aldraða í að búa lengur heima. Þetta verður allt að fylgjast að. Það má ekki eiga sér stað að einhver kúvending verði og hætt verði að sinna dvalarheimilisþjónustunni og fara út í sjálfstæða búsetu en svo fylgi ekki með allt annað sem til þarf, bæði hvað varðar einstaklinga og samfélagsþjónustu.

Það verður til framtíðar litið að tryggja að hver og einn hafi trygga afkomutryggingu og viðunandi lífeyri, það er bara svo einfalt. Ég held að ég tali fyrir hönd margra sem vilja verða gamlir en vilja ekki verða gamalmenni. Það er eitt að verða gamall og annað að verða gamalmenni. Við viljum auðvitað geta lifað sem sjálfstæðir einstaklingar við góða og þokkalega heilsu þannig að við getum séð um okkur sjálf fram á efri ár. Á þessu tekur þingsályktunartillagan.

Við erum vel meðvituð um það samkomulag sem gert var við eldri borgara. Eldri borgarar eru mjög ósáttir við að verið sé að tala um það sem samning eða einhverja sameiginlega niðurstöðu, heldur líta eldri borgarar á að þetta sé eingöngu spor í rétta átt og það sé margt sem vanti inn í þetta samkomulag svo að það sé viðunandi.

Það sem við tökum hér upp, fyrir utan að hækka tekjutrygginguna og frítekjumarkið, er að að hækka vasapeningana sem eru ráðstöfunarfé þeirra sem eru á stofnunum og að þeir hækki frá 1. júlí sl. Það er okkur náttúrlega til skammar það fyrirkomulag um vasapeningagreiðslur sem nú er, að fólk sem af einhverri ástæðu fer á dvalarheimili, dvalarheimilisíbúðir eða slíka þjónustu, verði ölmusuþegar. Þetta er hugsun sem við eigum sem allra fyrst að koma okkur út úr og vinna sameiginlega að því að breyta þessu fjáröflunarkerfi fyrir rekstur dvalarheimilanna þannig að þeir einstaklingar sem þar eru geti lifað með reisn.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég finn fyrir auknum skilningi á því að ekki megi dragast að bæta hag aldraðra og að tryggja verði að þegar við eldumst getum við haldið okkar reisn og búið eins og við sjálf kjósum og höfum þá afkomutryggingu sem nægir eða er lágmark fyrir framfærslukostnaði. Það er alveg ljóst að við erum að brúa bil til nokkurra ára, bilið sem er þar til lífeyrissjóðirnir taka að mestu við hlutverki almannatrygginga sem við höfum búið við fram að þessu. En þetta er viðkvæmt tímabil og sérstaklega er það viðkvæmt fyrir konur og það verður áfram, eftir að lífeyrissjóðakerfið tekur alfarið við, huga þarf vel að stöðu kvenna því að eins og við vitum hafa þær í gegnum árin fram undir þetta ekki greitt eins í lífeyrissjóði og karlar af þeirri einföldu ástæðu að þá þótti eðlilegt að konur væru heima og hugsuðu um börnin. Þær hafa frekar verið í hlutastörfum en karlar, þannig að af ýmsum ástæðum eiga þær minna í lífeyrissjóðum en karlar og þvi verður að huga sérstaklega að því þegar hið almenna lífeyrissjóðakerfi tekur við af núverandi kerfi.