133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[15:54]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða tillögu til þingsályktunar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar kynna sameiginlega á þessu þingi. Það hefur margoft komið fram í máli þeirra að þetta er ein af sameiginlegum tillögum þeirra og það er í sjálfu sér fagnaðarefni að svo skuli vera og sú sama stjórnarandstaða nánast sem við höfum búið við í ellefu og hálft ár skuli koma sér saman um einhver mál, og hver er áherslan? Jú, það eru þrjú mál. Þetta sem við erum að ræða nú, þingsályktunartillaga um verndun Þjórsárvera, en það mál er nú í vinnslu á vegum ríkisstjórnarinnar, og síðan þriðja málið, endurskoðun jafnréttislaga sem er í sjálfu sér mjög fínt mál og að mér skilst fjallar einkum um auknar heimildir til handa Jafnréttisstofu. Þá bendi ég á að á vettvangi félagsmálaráðuneytisins er í gangi vinna við að endurskoða lögin og er Guðrún Erlendsdóttir hæstaréttardómari þar í forsvari sem formaður nefndarinnar.

Eins og ég sagði í andsvari mínu við ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur finnst mér afar mikilvægt að á vettvangi þingsins sé rætt einmitt um velferðarmálin og um almannatryggingarnar og ég fagna því að við fáum tækifæri til þess.

Ég tel í sjálfu sér að almannatryggingakerfið eigi að vera með þeim hætti að það sé sem sanngjarnast, einfaldast og að það sé gagnsætt. Þess vegna tek ég undir það sem hér hefur verið sagt að nauðsynlegt er að ráðast í endurskoðun almannatryggingakerfisins. Nú megum við ekki gleyma því að til þess hafa verið gerðar allnokkrar tilraunir. Einhverra hluta vegna hefur mönnum ekki tekist að klára það verk og hafa þar komið að allnokkrar ríkisstjórnir. Ég tel samt mikilvægt að menn skoði það og hefur hæstv. heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, rætt um að skoða það verkefni.

Ég vil í þessu sambandi einnig ræða svolítið um hugmyndafræðina. Að mínu mati er mikilvægt að í kerfi eins og almannatryggingakerfinu horfum við frekar á það sem fólk getur frekar en að horfa á það sem fólk getur ekki. Það eru lítil atriði eins og t.d. að tala frekar um að fólk sé 10% vinnufært fremur en að tala um að fólk sé 90% öryrkjar. Ég held að í því felist um leið viss grundvallarbreyting á viðhorfum til almannatrygginga og til örorkulífeyris og til lífeyriskerfisins alls.

Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að gera að umtalsefni sérstaklega þá yfirlýsingu ríkisstjórnar og Landssambands eldri borgara sem þingmönnum hefur orðið tíðrætt um. Ég vil samt segja að menn geta ekki horft fram hjá þeim mikilvægu skrefum sem þar eru tekin. Þar eru tekin skref í átt til þess að hækka bætur lífeyristrygginga, tekin skref í þá átt að lækka áfram, eins og við höfum verið að gera, skerðingarhlutfallið og svo síðast en ekki síst er þarna um að ræða merkilegar tillögur sem miða að því að bæta úr búsetukostum eldri borgara og þeirri þjónustu sem þeir eiga rétt á og finnst mér mikilvægust sú aukning sem menn ætla að setja í heimaþjónustu og auka þjónustu heim til lífeyrisþega og eldri borgara.

Svo geta menn ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að þessi umrædda yfirlýsing er upp á tólf milljarða þegar hún verður komin að fullu til framkvæmda og það er engin smáfjárhæð, tólf milljarðar, virðulegi forseti. Frumvarp um þetta er væntanlegt á þinginu og munum við auðvitað taka það til efnislegrar meðferðar og ég vona að okkur takist að klára það mál.

Ég get heldur ekki látið hjá líða að minnast örlítið á það sem þegar hefur verið gert. Ef menn skoða árangur ríkisstjórnarinnar, ekki einungis á þessu kjörtímabili heldur þeim síðustu, þá hefur hún staðið fyrir því að bætur hafa verið hækkaðar og menn hafa lækkað skerðingarnar. Við munum eftir að einu sinni var þetta króna á móti krónu þegar fólk vann úti en í dag er búið að lækka það skerðingarhlutfall niður í 45% og í þeim yfirlýsingum og tillögum sem nú liggja fyrir og munu koma fram í frumvarpi er gert ráð fyrir að lækka það enn þá meira.

Mér finnst í þessu tilliti rétt að rifja aðeins upp vegna umræðu um þróun útgjalda til velferðarmála hvernig staðið hefur verið að þessu. Ef við tökum einungis framlög ríkisins til heilbrigðismála frá 1998 til ársins 2006 er þar um að ræða 49% hækkun á framlögum ríkisins, nærri 50% hækkun á framlögum ríkisins til heilbrigðismála.

Ef við tökum saman framlög ríkisins til almannatrygginga og velferðarmála er um að ræða hvorki meira né minna en 45% hækkun frá 1998, virðulegi forseti. Menn geta ekki gleymt þessu.

Af því að við heyrðum í kröftugum hópi stúdenta úti á Austurvelli og ræðumaður fór hér að ræða um menntamálin skulum við ekki gleyma því að ríkisstjórnin hefur einnig staðið fyrir allverulegri aukningu til menntamála eða um 60% og til háskólastigsins eingöngu 80%, ef við tökum saman aukningu framlaga frá 1998. Mér finnst það vel að stúdentar minni á sig og minni á með þeirri meðmælagöngu vegna menntamála, að verkefnin eru mikilvæg og við munum að sjálfsögðu beita okkur áfram á þeirri braut sem við höfum verið á.

Virðulegur forseti. Af því sem fram kemur bæði í greinargerð með þingsályktunartillögunni og í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, ef ég fer rétt með, ræddi hún um þróun útgjalda til félagsmála og bar saman Norðurlöndin. Ef við horfum einungis á félagsútgjöldin, og vísa ég í tölur NOSOSKO, þá er það rétt miðað við nýjustu tölur sem ég hef hér í höndum frá árinu 2002, að Ísland er þar með lægsta hlutfallið. En ef við tökum saman útgjöldin til félagsmála og til heilbrigðismála, af því að það kerfi sem er hér er ekki að fullu samræmanlegt í þeim ríkjum, þá stöndum við Íslendingar þarna um miðja vegu, í meðaltali þessara tveggja þátta. Ég held að það sé mikilvægt að halda því til haga.

Ef við skoðum hvað er að gerast annars staðar á Norðurlöndunum, t.d. í félagsmálunum og vísa ég í þessa samantekt NOSOSKO, þá eru Danir, Finnar, Norðmenn og Svíar allir að draga saman útgjöld sín til félagsmála frá 1995 til ársins 2003 meðan Íslendingar hafa aukið þau úr 19% í 24,2% á árinu 2003. Vísa ég hérna í fyrrnefndar NOSOSKO-tölur.

Virðulegur forseti. Það er afar brýnt að við ræðum um framtíðarskipan lífeyrismála. Ég hef í þessari stuttu ræðu minni farið aðeins yfir hvað við höfum staðið fyrir og ég tel að ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn þar í fyrirrúmi muni að sjálfsögðu áfram berjast fyrir bættum hag öryrkja og eldri borgara. Þetta er mikilvægt umræðuefni og ég veigra mér ekki við að taka þátt í því.