133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[16:05]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst nú þingmaðurinn ansi brattur og kaldur að fara að opna umræðu um skattleysismörkin í þessari umræðu hér. Vissulega eru þau að hækka um tíu þúsund kall, ef ég man rétt, (Gripið fram í: Tólf.) tólf þúsund í tengslum við þá samninga eða yfirlýsingu sem var gerð í sumar en það hefur verið reiknað út að til þess að skattleysismörkin mundu halda raungildi sínu eins og var þegar þessi ríkisstjórn tók við ættu þau að vera 130 þúsund en þau verða um það bil 90 þúsund þegar þessar tólf þús. kr. eru komnar til framkvæmda. Það er þessi skerðing á skattleysismörkunum sem hefur farið mjög illa með lífeyrisþega, aukið verulega skattbyrði þeirra umfram annarra í þjóðfélaginu, sem er auðvitað alveg til skammar. Skattleysismörkin eru einmitt skjól og skjöldur þeirra sem hafa litlar tekjur.

Varðandi það að auka frekar möguleika öryrkja en aldraðra til atvinnuþátttöku þá horfi ég til beggja þessara hópa. Það er ákveðið svigrúm hjá öryrkjum núna eins og hv. þingmaður þekkir að þeir hafa möguleika til að afla sér tekna þar sem eingöngu 60% atvinnutekna þeirra skerða lífeyrisgreiðslur. En í tillögu okkar er lagt til að frítekjumarkið verði 75 þús. kr., og það þýðir að þeir sem eru með yfir 1,5 millj. kr. í tekjur, öryrkjar, hagnast meira á þessari gildandi reglu en þeir sem eru undir 1,5 millj. í tekjur munu hagnast miklu meira á því frítekjumarki sem við erum að boða, eða um 900 þús. kr. frítekjumark á ári.

Ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst það mjög sérstakt ef Framsóknarflokkurinn og hv. þingmaður vilja ekki líka horfa til þess að auka atvinnuþátttöku og atvinnumöguleika aldraðra. Við þekkjum það að miðaldra fólk þarf oft að hverfa af vinnumarkaði, fólk sem er komið yfir fimmtugt (Forseti hringir.) og yfir sextugt er oft rekið af vinnumarkaðnum. Ég mun koma nánar inn á þetta í máli mínu (Forseti hringir.) hér á eftir en ég hef óskað eftir að fá að taka til máls aftur.