133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[16:09]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það líka að það er ánægjulegt að einn þingmaður Framsóknarflokksins skyldi koma hér og voga sér í þessa umræðu, það þarf dálítið hugrekki, það er rétt, til að reyna að réttlæta gjörðir ríkisstjórnarinnar hvað varðar framkomu til aldraðra og öryrkja. Það er hinn nýviðtekni þingmaður Sæunn Stefánsdóttir, en hún tók við af fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins, Halldóri Ásgrímssyni, sem hefur verið annar forustumaður ríkisstjórnarinnar frá 1995 og hefur tekið þátt í þeirri vinnu sem við höfum gagnrýnt hér hvað mest, þ.e. hvernig skattheimta af öldruðum hefur aukist í tíð núverandi ríkisstjórnar, sem gerir það að verkum að það er verið að taka tvo mánuði af bótum þeirra í skatt til ríkissjóðs. Svo koma ríkisstjórnarflokkarnir og hæla sér fyrir hvað þeir hafi mikið skattfé í ríkiskassanum.

En er hv. þingmaður, nýkjörinn ritari Framsóknarflokksins, ánægð með þá skattastefnu að aldraðir og öryrkjar skuli vera látnir borga svona mikið af sínum litlu bótum í skatt til ríkissjóðs?