133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[16:14]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Samkvæmt mælendaskrá er nú að koma að lokum þessarar umræðu. Ég fagna mjög þeirri umræðu sem hefur orðið hér um kjör og aðbúnað lífeyrisþega. Hún þyrfti að vera miklu meiri á þingi vegna þess að það er alveg ljóst að við þurfum að setja málefni lífeyrisþega í meiri forgang en við höfum gert. Væntanlega verður önnur umræða tekin um þetta mál þegar frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra lítur dagsins ljós. Ég á ekki von á öðru en að við munum láta við þá umræðu reyna á þær tillögur sem við höfum lagt fram og vita hvort þær hafi ekki fylgi hér á þingi. Hvort það geti verið að allir stjórnarliðar ætli að láta sér nægja það litla sem lífeyrisþegum er skammtað í yfirlýsingu með Samtökum aldraðra.

Lífeyriskaflinn í því samkomulagi er ómögulegur og það þarf að lagfæra hann. Ég fagna því sem á að gera á búsetuhliðinni í því máli. Það er mjög brýnt að gera átak í þeim efnum. Mín skoðun er sú að við þurfum að skoða málefni aldraðra og lífeyrisþega mjög heildstætt. Ég held að það þurfi að gera úttekt á stöðu lífeyrisþega, bæði aldraðra og öryrkja, í íslensku samfélagi og hvernig framfærslu- og búsetuskilyrði hafa þróast í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ég held að það væri þarft viðfangsefni að skoða það.

Við þekkjum skattbyrðina og við höfum margfarið í gegnum það hvernig hún hefur verið að aukast í tíð þessarar ríkisstjórnar, alveg gífurlega. Það liggur fyrir um það staðfesting í svörum hæstv. fjármálaráðherra hér á þingi að skattbyrði á einstakling með 130 þús. kr. tekjur árið 2006 hefur hátt í fjórfaldast milli áranna 1995 og 2006. Ég sá núna á netinu frétt um að skattbyrði hafi hækkað langmest á Íslandi á síðasta ári. Þetta er enn ein staðfestingin á aukinni skattbyrði á heimilin í landinu. Það hefur komið fram að mesta aukningin hefur orðið á Íslandi á sl. ári í aukinni skattbyrði, eða 3,7%. Það kemur fram í þessari frétt að hún sé núna 42,4%.

Skattamálin eru alveg kapítuli út af fyrir sig. Það er staðreynd að fólk með lágar tekjur, fólk með meðaltekjur og raunverulega allir nema þeir sem hæstar hafa tekjurnar hafa orðið að sæta hærri skattbyrði en þeir höfðu. Það þýðir ekkert að mótmæla því, það eru til margar staðreyndir um það mál. Það hlýtur að vera forgangsverkefni í íslensku samfélagi að lækka skattbyrði á fólk með lágar og meðaltekjur. Ég held að við hljótum að reyna að leita samstöðu um það að greiðslur lífeyrisþega úr lífeyrissjóðum beri ekki tekjuskatt, heldur ekki hærri skatt en fjármagnstekjurnar. Það gengur ekki að auðmennirnir í þessu landi, sem hafa mest af sinni framfærslu af fjármagninu, borgi 10% skatt á sama tíma og lífeyrisþegar borga af lífeyrisgreiðslum sínum úr lífeyrissjóði 37% skatt. Þetta á því að vera forgangsmál og það er sanngirnismál að leiðrétta þetta.

Varðandi lífeyrisgreiðslurnar liggur fyrir að kaupmáttur lífeyris hefur hækkað miklu minna en hjá öðrum. Hann hefur hækkað helmingi minna en hjá öðrum vegna þess að stjórnarliðar — þegar þeir koma hér í ræðustól og berja sér á brjóst og tala um 60% aukinn kaupmátt, þá er það svo að það er einungis hjá litlum hluta aldraðra, eða hjá 300–400 öldruðum sem hafa eingöngu framfæri sitt úr almannatryggingunum, sem kaupmátturinn hefur hækkað eitthvað samhliða og hjá öðrum. Almennt hefur kaupmáttur lífeyrisgreiðslna hækkað miklu minna en hjá öðrum og munar þar alveg um helming. Hér kemur þetta fram, kjör aldraðra batna minnst, og samtök lífeyrisþega segja að tölur forsætisráðherra um að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hafi aukist um 60% á sl. tíu árum eigi ekki við um meiri hluta aldraðra — það er það sem ég er að segja — kaupmáttur þeirra hafi aðeins aukist um tæp 10% á sama tíma, segja þeir. Hvernig sem á þetta er litið hefur það verið margsett fram að stór hluti lífeyrisþega hefur ekki búið við sama kjarabata og aðrir í samfélaginu.

Ef við lítum á búsetumál aldraðra eru þau auðvitað til skammar og ekki vonum seinna að á því sé tekið í því samkomulagi eða yfirlýsingu sem gerð var. Skýringin á því að við erum með langa biðlista eftir hjúkrunarrýmum er sú að í langan tíma hefur Framkvæmdasjóður aldraðra verið skertur. Framkvæmdasjóður aldraðra átti að fara í uppbyggingu á hjúkrunarrýmum m.a. en hann hefur verið skertur verulega þannig að ekki hefur verið hægt að fara í þá uppbyggingu sem þörf er á. Aldraðir hafa ekki fengið þá heimaþjónustu sem þeir þurfa á að halda ef draga á úr stofnanarými eins og víðast hefur verið gert. Hjá þjóðum sem við berum okkur saman hefur heimaþjónustan og heimahjúkrunin aukist verulega einmitt til þess að draga úr stofnanarými. Það gengur ekki að við búum þannig að öldruðum, eins og þetta hefur verið hér, að það séu einir eitt þúsund aldraðir þar sem tveir eða þrír þurfa að deila saman herbergi, fólk sem kannski þekkist ekkert. Það er ekki bjóðandi upp á það, fólk á að geta haldið fullri reisn alla sína lífstíð en vera ekki boðið síðustu æviárin upp á slíkan aðbúnað sem skömm er að. Það hlýtur að vera markmið okkar að á tiltölulega stuttum tíma verði ráðist í að leysa þessi búsetumál þannig að það heyri sögunni til í íslensku samfélagi að bjóða öldruðum upp á það síðustu æviárin að deila saman tveir eða þrír herbergi.

Við vitum líka að húsnæðismálin almennt hjá þeim sem eru fullfrískir — hjá þeim sem þurfa að leita á leigumarkaðinn hefur leigan rokið upp á síðustu mánuðum og árum. Er það bjóðandi að fólk, kannski aldraðir og öryrkjar, þurfi að borga fyrir litla tveggja herbergja íbúð 70–90 þús. kr. á mánuði, fólk sem er kannski með 130 þús. kr. í tekjur, að það fari ¾ þeirra tekna bara í húsaleigu? Það eru margar skýringar á því og ríkisstjórnin á verulegan hlut að máli hvernig þar er komið.

Ef við skoðum allt umhverfi lífeyrisþega verður líka að taka hér upp kostnað aldraðra og öryrkja í heilbrigðiskerfinu, hann hefur verið að aukast. Lyfjakostnaður og lækniskostnaður þessa hóps hefur verið að aukast. Við þekkjum dæmi um það, sem margsinnis hefur komið fram, að verulegur hluti af tekjum lífeyrisþega fer í lyfja- og lækniskostnað og stundum hafa þeir ekki getað leyst út sitt lyf eða leitað til læknis. Þannig er nú komið í íslensku samfélagi að stór hluti tekna þessa fólks dugir ekki fyrir framfærslunni og það er viðleitni okkar hér með (Forseti hringir.) þeirri tillögu sem rædd er í dag að bæta verulega kjör aldraðra og lífeyrisþega.