133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

álit Samkeppniseftirlitsins um búvörulögin.

[15:05]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi taka fram að mjólkuriðnaðurinn er ekki ríkisstyrktur nema að því leyti að hann býr við tollvernd og opinbera verðlagningu. Þetta á við um hinn hefðbundna mjólkuriðnað og Mjólku einnig. Hvort tveggja fyrirtækið á rétt á sér.

Landbúnaðurinn hefur á síðustu árum verið að undirbúa sig undir nýja WTO-samninga sem hafa dregist á langinn. Það er markmið íslenskra bænda að halda fast um heimamarkað sinn og vera samkeppnisfærir bæði í verði og gæðum. Alþingi ákvað 2004 að mjólkuriðnaðurinn væri áfram undir búvörulögum. Þetta var gert með skýrum og ótvíræðum hætti. Undir þeirri löggjöf hafa bændur unnið að hagræðingu og mátt hafa samráð og samvinnu með sér um þau atriði.

Meginástæða þessarar stefnu Alþingis er sú að greinin þarf svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni. Verðlagsnefnd ákvarðar heildsöluverð á mjólk og nokkrum öðrum mjólkurvörum. Þar eiga sæti fulltrúar launafólks og neytenda, bæði frá ASÍ og BSRB. Þannig er tryggt gagnsæi í verðlagningu afurðanna.

Ég ætla ekki að halda því fram að þetta fyrirkomulag sé gallalaust. En ég teldi mig koma aftan að bændum og mjólkuriðnaðinum ef ég eða Alþingi breytti þessu núna. Þetta var sáttargjörð sem sneri að nýjum mjólkurvörusamningi við bændur og væntanlegri breytingu í alþjóðaumhverfinu. Við skulum heldur ekki gleyma því að þetta var einnig gert út frá jafnræði og jöfnum aðgangi smærri verslana í miskunnarlausri samkeppni við stórar verslunarkeðjur.

Hæstv. forseti. Ég svara seinni spurningu hv þingmanns þannig: Það er sameiginleg stefna ríkisstjórnarflokkanna að opna samkeppnisumhverfi á sem flestum sviðum í lengri framtíð. Það á við um landbúnaðinn einnig. Íslendingar vilja ákveðna sérstöðu um sjávarútveg og auðlindir í náttúru landsins, svo og orkumál og að landbúnaðurinn fái tíma og geti staðist róttæka alþjóðasamninga eins og WTO. (Forseti hringir.) Þessi sérstaða er undirbúningur þess. Viðskiptaumhverfi landbúnaðarins, hæstv. forseti, er í örri þróun (Forseti hringir.) og umbreytingu með hagsmuni neytenda og bænda í huga.