133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

álit Samkeppniseftirlitsins um búvörulögin.

[15:10]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ræða hæstv. landbúnaðarráðherra kom mér dálítið á óvart áðan. Það er augljóst að hann hefur dregið ögn í land miðað ummæli hans í upphafi máls. Hann vill skoða þetta með jákvæðara hugarfari heldur en hann kannski sýndi fyrst þegar hann brást við tilmælum Samkeppniseftirlitsins.

Hins vegar kom mér ekki síður á óvart að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins á hinu háa Alþingi, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, telji hag bænda best borgið með því að einn kaupandi sé að mjólkurvörum, að það tryggi hag bænda, í því felist vernd gagnvart þeim og það tryggi hagsmuni þeirra til lengri tíma. (EOK: Já.) Þetta kemur mér í opna skjöldu, virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að þetta er þá eitt fárra dæma í hagfræðisögunni að menn telji nokkuð víst að hagsmunir framleiðenda séu best tryggðir með einn kaupanda að vörunni. Þetta er mjög athyglisverð kenning og mun sjálfsagt lifa lengi í sölum Alþingis.

Virðulegi forseti. Lykilatriðið er að við þurfum að horfa til lengri tíma þegar við ræðum þessi mál. Fyrir tveimur árum þegar þetta var samþykkt lögðumst við eindregið gegn því að taka búvörur undan samkeppnislögum og greiddum atkvæði gegn þeirri leið. Það er að koma á daginn enn og aftur að hagsmunum bænda er ekki best borgið með þessu. Ekki heldur þeirra sem vilja koma inn í þessa grein og framleiða. Nú hafa verið sett fram tilmæli í þá veru um að þetta verði skoðað. Ég verð að segja að það kom mér skemmtilega á óvart að hæstv. landbúnaðaráðherra skuli kominn á þá línu núna að vilja skoða þetta mjög eindregið.