133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

álit Samkeppniseftirlitsins um búvörulögin.

[15:12]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tel fullt tilefni til að skoða tilmæli Samkeppniseftirlitsins og meta hvort þau gefi tilefni til breytinga á búvörulöggjöfinni. Það er auðvitað ekki rétt sem hefur komið fram í þessari umræðu, að það hafi verið sérstakt nýmæli í lagabreytingunni 2004 að hluti búvörulaganna væri undanþeginn ákvæðum samkeppnislaga. Það hefur verið svo frá upphafi, að ég held. Þótt áherslubreyting yrði í lagabreytingunni 2004 þá var skýrt að fyrir þann tíma voru víðtækar undanþágur frá samkeppnislögunum í búvörulöggjöfinni.

Ég tel mikilvægt að við skoðun þetta mál í ljósi þess að breytingarnar og þessar undanþágur voru samþykktar með þeim formerkjum að um tímabundnar ráðstafanir væri að ræða. Ég held að það sé fullt tilefni fyrir okkur að skoða hvort þær aðstæður eru uppi að þessu þurfi að breyta.

Ég held að framtíðin í þessum málum hljóti að verða að samkeppni ríki á þessum sviðum atvinnulífsins eins og í öðrum greinum atvinnulífsins. Ég tel mikilvægt að hafa í huga að á hverjum tíma þegar einokun hefur verið aflétt, eða samkeppnishömlum aflétt, þá hefur verið varað við því á þeirri forsendu að þær greinar sem í hlut ættu mundu bera skarðan hlut frá borði. Reynslan er hins vegar sú að greinarnar hafa styrkst, hagur neytenda batnað með aukinni samkeppni. Ég held að það sé mikilvægt að við skoðum breytingar til framtíðar á þessu sviði út frá því að auka samkeppni og tryggja að sömu lög mál gildi í þessum viðskiptum sem í öðrum viðskiptum í landinu.