133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

álit Samkeppniseftirlitsins um búvörulögin.

[15:19]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Það er almenn stefna stjórnvalda að vinna að frjálsu viðskiptaumhverfi og markaðsaðstæðum á sem allra flestum sviðum hagkerfis og þjóðlífs eins og kunnugt er. Það hefur verið víðtæk sátt um að m.a. í landbúnaði séu þær aðstæður ekki fyrir hendi að unnt sé, til skamms tíma litið, að vinna að því. En eins og fram kom í máli hæstv. landbúnaðarráðherra er það stefnan til lengri tíma.

Við Íslendingar erum skuldbundinn aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og þar er unnið að mjög róttækum breytingum. Þótt þar hafi orðið uppstytta um skeið er engin ástæða til að ætla annað en að þær viðræður fari aftur af stað. Þar erum við skuldbundnir aðilar og viljum vinna þar áfram í skynsamlegum þrepum að því að breyta markaðsaðstæðum á sem flestum sviðum í slíka átt. Við verðum reyndar að hafa í huga sérstakar markaðsaðstæður í smásöluversluninni þar sem orðið hefur mikil samþjöppun á undanförnum árum.

Reyndar er ástæða til að nefna að í nýlegum og nýbirtum aðgerðum ríkisstjórnarinnar um matvöruverð, eru markverðar breytingar sem snerta líka rekstrarumhverfi landbúnaðarins og ganga í sömu átt.