133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

álit Samkeppniseftirlitsins um búvörulögin.

[15:21]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fundið er að því að íslensk landbúnaðarvara, einkum mjólkurafurðir, heyri ekki undir samkeppnislög heldur búvörulög og séu háðar verðlagsákvæðum. Er þetta gott eða er þetta slæmt? Í mínum huga er svarið tvíþætt. Það snýst um praktík og prinsipp, svo maður sletti á erlenda tungu.

Hver hefur reynslan verið? Reynslan hefur verið sú að fyrirkomulagið sem við höfum búið við hefur fært okkur almennt hagstæðari verðlagsþróun fyrir neytendur en á öðrum sviðum. Þetta er staðreynd. Mjólkurafurðir hafa hækkað minna en neysluvarningur almennt hefur gert. Þetta er staðreynd.

En þegar horft er til samkeppninnar og menn veifa heilagri ritningu frjálsrar samkeppni þá er hún á ýmsum sviðum við lýði en aðeins í orði. Við þekkjum hvernig samkeppnin hefur leikið þjóðina, t.d. varðandi olíu og bensín.

Síðan eru það prinsippin. Á að vera heimilt að undanskilja tiltekna vöru og þjónustu samkeppnislögum? Að sjálfsögðu á það að vera heimilt. Eða vilja menn fara með velferðarþjónustuna, einnig þá sem fengið hefur verðmiða á markaði, undir samkeppnislög og lúta ákvæðum og valdboði Samkeppnisstofnunar? Ég segi nei.

Ég vara við fólki sem hefur eitt auga í miðju enni og horfir aðeins fram á við og aldrei til hliðar og er aldrei tilbúið að læra neitt af reynslunni eða draga af henni lærdóma.