133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

skerðing lífeyrissjóða á lífeyrisgreiðslum til öryrkja.

[15:37]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég skil mjög vel að öryrkjar og talsmenn þeirra vilji fá skerðingu örorkulífeyris þeirra frá lífeyrissjóðunum hnekkt. Þar er augljóslega um mikla kjararýrnun að ræða.

Það er hins vegar ekki svo að leiðin til að hnekkja þessum ákvörðunum sé í gegnum fjármálaráðherra eða fjármálaráðuneytið. Það er samkvæmt lögunum ekki hlutverk ráðherrans eða ráðuneytisins. Hlutverk ráðuneytisins og ráðherrans er að staðfesta samþykktir eftir að þær hafa verið bornar efnislega undir eftirlitsaðilann, sem er Fjármálaeftirlitið, og ganga þannig úr skugga um að þær standist lögin.

Í öðru lagi skipar fjármálaráðherra í stjórnir nokkurra lífeyrissjóða, að mestu leyti eftir tilnefningar, en hefur að öðru leyti ekkert með það að gera hvernig þeir starfa innan stjórnar, þeir eru sjálfstæðir stjórnarmenn eins og allir aðrir.

Hv. þingmaður nefnir sérstaklega stjórnarskrárvarin réttindi vegna lífeyrisgreiðslna. Það er örugglega rétt hjá hv. þingmanni að það er mjög líklegt að slík réttindi séu varin með stjórnarskránni ef þau hafa frá upphafi verið rétt útreiknuð. Það gæti hins vegar verið annað mál ef þeir reikningar sem lagðir hafa verið til grundvallar í upphafi eru ekki réttir.

Ég nefndi áðan að Fjármálaeftirlitið væri eftirlitsaðilinn. Sá aðili hins vegar sem samkvæmt lögunum er ætlað að úrskurða um deilumál í þessum efnum, og hnekkja eftir því sem tilefni gefst til ákvörðunum stjórnar lífeyrissjóðanna, er gerðardómur sem hægt er að skipa samkvæmt lögunum. Leiðin er ekki í gegnum fjármálaráðherra eða fjármálaráðuneytið heldur í skipun gerðardóms samkvæmt lögunum. Ég held að skynsamlegast sé fyrir þá sem ósáttir eru við þessar niðurstöður að fara þá leið og ég vænti þess að út úr því fáist þær niðurstöður sem réttar geta talist.