133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

skerðing lífeyrissjóða á lífeyrisgreiðslum til öryrkja.

[15:44]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að færa þetta mál til umræðu. Stór hópur öryrkja getur ekki bætt sér upp tekjumissi sinn með atvinnutekjum. Fólkið lifir af bótum sem það fær frá Tryggingastofnun og tekjum úr lífeyrissjóði, hafi það átt þar rétt sem dugað hefur til framreiknings. Vandi öryrkja er mjög sértækur þar sem viðmið þeirra til framreiknings launa úr lífeyrissjóði eru oft mjög lítil og gefa þar af leiðandi aðeins rétt til mjög lágra greiðsla úr viðkomandi lífeyrissjóði. Tökum dæmi.

Skipstjóri sem slasast í starfi var oftast á góðum launum. Hann verður 75% öryrki og er metinn út frá því. Hann var í fullu starfi með góðar tekjur. Framreikningur hans er byggður á tekjum í fullu starfi og réttur úr lífeyrissjóði um 300 þús. kr. á mánuði. Svona dæmi eru til þó enginn hamingja felist í því að slasast og verða öryrki.

Annað dæmi er af konu úr sveit sem starfaði við heimilishald og búrekstur. Hún var á lágum launum enda staða bænda lengi þannig að varla var afgangur til lágmarkslauna. Auk þess var aðdragandinn að örorku hennar bæði veikindi og slys. Þannig kom örorka hennar til á nokkrum árum, fyrst tímabundin og síðan 25% þar til að því dró að hún varð 75% öryrki nokkrum árum síðar.

Viðmiðunarárin hennar gáfu lága tekjuviðmiðun og ekki var framreikningur til launa úr lífeyrissjóð hár. Á þessu ári fær hún greiðslu upp á 24 þús. kr. á mánuði úr lífeyrissjóði og á rétt á örorkubótum. Með ákvörðun um endurreikning sem tekin var af stjórnum 14 lífeyrissjóða verður greiðsla til hennar nánast engin. Svo virðist sem uppbót vegna lyfjakostnaðar og lágur bensínstyrkur hafi verið reiknaður sem tekjur í endurreikningi en ekki sem endurgreiðsla á móti kostnaði. Þegar hringferðinni milli lífeyrissjóðalækkunar til hennar og endurreiknings hjá Tryggingastofnun ríkisins lýkur er líklegt að hún haldi 40–42% af áðurgreindum 24 þús. kr. eða 10–12 þús. kr. á mánuði.

Hæstv. forseti. Þessi breyting á lífeyrissjóðsmálum öryrkja er gersamlega óásættanleg og henni ber að fresta.