133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

skerðing lífeyrissjóða á lífeyrisgreiðslum til öryrkja.

[15:49]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur rætt þetta mál í tvígang, fengið til sín gesti og fengið upplýsingar um málið. Við þetta mál hef ég þrjár athugasemdir.

Í fyrsta lagi hef ég bent á að óraunhæft er að miða laun við verðlag, launaviðmiðunina. Það á að sjálfsögðu að miða við launavísitöluna þegar sett eru mörk á hvað menn mega hafa miklar tekjur. Þó að lífeyrir frá lífeyrissjóðum sé ekki verðtryggður nema með neysluvísitölu þá finnst mér óeðlilegt að miða heildarlaunin við annað en launavísitölu.

Í öðru lagi gerði ég þá athugasemd að þessi framkvæmd er afskaplega vélræn og ómanneskjuleg. Það er ekki gefinn langur tími til að aðlagast þessum breytingum og framkvæmdin er nánast með skipun í tölvu.

Í þriðja lagi vildi ég gera athugasemd við þann stutta tíma sem menn hafa til að aðlagast þessum breytingum. Þau dæmi sem ég hef fengið eru þrjú og öll frá 1990–1995. Frá þeim tíma hafa laun í landinu hækkað langt umfram verðlag sem gerir þennan vanda sérstaklega mikinn. En þetta mál er ekki á forræði Alþingis eða framkvæmdarvaldsins. Þetta er á forræði aðila vinnumarkaðarins og ákvörðunin er tekin með réttum hætti á aðalfundum lífeyrissjóðanna þar sem aðilar vinnumarkaðarins ráða en ekki sjóðfélagar. Það veltir náttúrlega upp þeirri spurningu hvort ekki skorti á lýðræði í lífeyrissjóðunum þannig að hinn almenni sjóðfélagi taki á þessum vanda.

Þetta er að sjálfsögðu eitt af þeim málum sem ég ef margoft bent á, að það þarf að auka lýðræði sjóðfélaganna í lífeyrissjóðum því þeir mundu gæta þess að svona breytingar yrðu gerðar á manneskjulegri hátt þannig að fólk geti aðlagast þeim breytingum sem gerðar eru.