133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

skerðing lífeyrissjóða á lífeyrisgreiðslum til öryrkja.

[16:00]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er rangt sem hv. þm. Helgi Hjörvar og Jóhanna Sigurðardóttir halda fram að samþykktir eða breyttar samþykktir lífeyrissjóðanna hafi einar og sér leitt til þeirra skerðinga sem stjórnir sjóðanna hafa ákveðið. Mér er reyndar til efs að þessar breytingar hafi raunverulega nokkur áhrif þar á. Ef þær hafa áhrif þar á er það vegna þess að þær eru innan þess lagaramma sem gildir í dag og ég hygg að langsamlega flestir sem sitja á Alþingi í dag hafi átt einhvern atbeina að því að setja þau lög og þá bera þeir ábyrgð á þeim. Það er því ekki um það að ræða að breyttar samþykktir séu það sem ráði í þessu máli. Það er lagaramminn sem í gildi er í dag sem ræður hvað þetta varðar.

Hv. þm. Helgi Hjörvar kýs að blanda þessu saman við hið svokallaða eftirlaunamál, sem er gott og blessað út af fyrir sig, og það er alveg í samræmi við það sem ég sagði áðan um þetta sama málefni að sé það svo að viðkomandi aðilar hafi haft lífeyrisgreiðslur sem eru rétt út reiknaðar frá upphafi tel ég mjög líklegt að það stangist á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. En hafi greiðslurnar verið rangt út reiknaðar gæti málið horft öðruvísi við, því getur eitthvað sem er gert á rangan hátt orðið að eignarrétti og þar með notið verndar stjórnarskrárinnar? Ég skal ekki kveða upp úr með það. En ég held það sé röng aðferðafræði í þessu máli að reyna að hnekkja ákvörðununum með því að leita þeirrar hnekkingar í fjármálaráðuneytinu. Lögin eru mjög skýr um það hvernig fara á með málið, það á að fara með það í gerðardóm og ég treysti því að hann (Forseti hringir.) muni finna réttlátu lausnina, frú forseti.