133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:04]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Þetta mál hefur nú verið rætt tvisvar í sölum Alþingis. Í bæði hin fyrri skiptin í 1. umr. tiltók forseti þessa ósk frá hæstv. menntamálaráðherra. Í bæði skiptin var gerð athugasemd við það úr sæti og forseti fór að sjálfsögðu að þingsköpum og tók mark á þeirri athugasemd. Nú virðist forseti hafa breytt út af og vill fá sérstakan rökstuðning fyrir þeim athugasemdum sem gerðar eru við tillögu um afbrigði á þingsköpum eða samkvæmt þingsköpum um það að mál séu flutt saman og skal ég gera það forseta til ánægju.

Það er þannig að hér er um tvö mál að ræða sem koma fram á sama tíma en eru í raun aðskilin. Annars vegar er um að ræða tillögur menntamálaráðherra um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi með stjórnskipulagi sem er sérkennilegt og óeðlilegt. Um þetta hafa verið miklar deilur í samfélaginu. Frumvarpið hefur breyst fimm sinnum en það er augljóst að engin sátt er um frumvarpið enn þá og menntamálaráðherra kemur nú með það í þriðja sinn án þess að nokkur sátt ríki um það. Það er annað málið. Ég geri ráð fyrir að þingið þurfi að fá allan þann tíma sem til ráðstöfunar er í 1. umr. til þess að ræða það og sjálfsagt í hinum umræðunum líka.

Hitt málið, forseti, fjallar um allt annan hlut þó að hann sé tengdur, og er um það að Ríkisútvarpið verði ekki lengur tengt Sinfóníuhljómsveit Íslands með þeim hætti sem verið hefur, að Ríkisútvarpið eigi að greiða tiltekinn hluta af kostnaði við rekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar, sem ríkisstjórnin hefur reyndar ekki gert í mörg ár án þess að menntamálaráðherra hafi við því hreyft. Þetta er mál sem miklu breiðari sátt er um þó að hún nái nú ekki út í öll horn. Umræða um þetta hefur ekki tekið langan tíma á þinginu og málið er allt, allt annars eðlis en það fyrra sem hér er fjallað um.

Svo má reyndar nefna það, forseti, fyrst við erum að ræða um dagskrá þingsins, að þriðja málið á dagskránni er fjölmiðlafrumvarpið og það tekur líka ákaflega langan tíma. Ég þakka fyrir að menntamálaráðherra skuli ekki hafa ætlað okkur að tala um þessi þrjú mál saman, en fjölmiðlamálið og Ríkisútvarpið eru miklu efnislega samtengdari en mál 1 og 2.