133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:26]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að gera athugasemdir við málflutning þingmanna stjórnarmeirihlutans sem hafa hafið efnislega umræðu um frumvarpið. Ég ætla líka að láta liggja á milli hluta hrósyrði hæstv. forseta Alþingis í garð ríkisstjórnar og ráðherra fyrir að greiða fyrir þingstörfum. Ég tel að það sé ekki beint fallið til að greiða fyrir þingstörfum að hefja þinghaldið með þessu umdeilda máli sem útvarpslögin eru. Við erum að ræða um dagskrá fundarins og athygli hefur verið vakin á því að það eru þrjú mál í einni spyrðu, Ríkisútvarpið, Sinfóníuhljómsveit Íslands og útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög, þessi þrjú frumvörp.

Það eru allir sammála um að eðlilegt sé að hafa hliðsjón af þessum málum öllum og að þau séu þess vegna í einni spyrðu. Menn greinir á um röðina. Við í stjórnarandstöðunni höfum lagt til að byrjað verði á að ræða sjálfan grunninn, fjölmiðlalöggjöfina í landinu, og síðan verði tekið til við að ræða sértæk lög, lögin um Ríkisútvarpið eru það óumdeilanlega, en það er umdeildasta frumvarpið eins og við þekkjum.

Hæstv. forseti bendir á að jafnan sé tekið tillit til óska 1. flutningsmanns — sem er þá hæstv. menntamálaráðherra í þessu tilviki — um röðunina. Við erum ekki sátt við það. En ég vil spyrja hæstv. forseta þingsins hvort ekki sé rétt að taka tillit til 1. flutningsmanns frumvarps um Ríkisútvarpið sem liggur fyrir Alþingi, en hann stendur hér í þessari pontu núna.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt fram frumvarp um Ríkisútvarpið sem gerir ráð fyrir umtalsverðum breytingum á stjórnsýslufyrirkomulagi Ríkisútvarpsins og svarar að okkar mati þeim kröfum sem hafa komið upp um nauðsynlegar breytingar á þeirri stofnun. Ég vil spyrja: Fyrir þá sem vilja hafa allt í einni spyrðu, er það ekki sanngjörn ósk og eðlileg af okkar hálfu og þá að við henni verði orðið, að færa umræðu um þetta mál inn í umræðu um Ríkisútvarpið? Þetta skiptir nefnilega máli.

Þegar 1. umr. um mál lýkur er það sent til nefndar. Frá nefnd er það sent til umsagnar út í þjóðfélagið og kallaðir eru fyrir einstaklingar og samtök til að fjalla um þau frumvörp sem verið er að eiga við. (Forseti hringir.) Þá tel ég eðlilegt að öll þau frumvörp (Forseti hringir.) sem taka á þessu viðfangsefni séu undir. (Forseti hringir.) Ég óska eftir að heyra rökstuðning fyrir því að hafna þessari kröfu ef það verður ofan á.