133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:30]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ófyrirleitin og ósanngjörn stjórnarandstaða, sagði formaður menntamálanefndar um þessa umræðu. Þá er hægt að rifja upp hvernig hún hófst. Hún hófst með því að ég gerði athugasemd úr sæti mínu, eins og ég hef gert áður, við það að flutt séu saman tvö frumvörp sem ekki eru efnislega skyld. Forseti kaus að misskilja þá athugasemd og túlka hana þannig að ég vildi tala um fundarstjórn forseta, sem ég gerði. Ég þóknaðist honum í því og talaði í þrjár mínútur um fundarstjórn forseta og skýrði fyrir forseta og þingheimi hvað ég ætti við með þessari athugasemd og hversu fullkominn rétt hún ætti á sér miðað við þingsköp og venju hér í þinginu.

Síðan hafa menn misskilið þetta á alla vegu og mér heyrist að hv. þm. Hjálmari Árnasyni, sem er nú mikil mannvitsbrekka, tækist að misskilja þetta líka á þann veg að ég hefði verið að neita því að fjölmiðlafrumvarpið og Ríkisútvarpsfrumvarpið væru rædd í sömu andrá. Því var aldrei neitað vegna þess að aldrei var farið fram á það. Hjálmar Árnason veður í villu og svíma en tekur upp þrjár mínútur af ræðutíma Alþingis til þess að koma andlitinu á sér í eitthvert kastljós, (Gripið fram í.) í eitthvert sjónvarp. Nei, mér dettur ekki í hug að fara fram á það vegna þess að ég veit að ræðutíminn þyrfti þá að vera svo langur að við höfum varla ráðrúm til þess. (Gripið fram í.)

Ófyrirleitni og ósanngirni, sagði þingmaðurinn. Annar þingmaður hér, Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, hv. þm., taldi að hér hefði verið boðað málþóf. Hver gerði það? Ég sagði að við þyrftum örugglega í 1. umr. og sjálfsagt í þeim tveimur síðari að nota þann tíma sem okkur gæfist til þess að ræða þetta mikilvæga mál og þess vegna væri ekki rétt að blanda í það Sinfóníuhljómsveitinni. (Gripið fram í.) Málþóf? Ja, ófyrirleitni og ósanngirni, ef hún kemur einhvers staðar fram þá kemur hún fram í því að nú á þessu þingi, þennan dag, 16. október, hálfum mánuði eftir að þing hófst, koma þau boð frá forseta þingsins — ég er hér að ræða um fundarstjórn hans — að það eigi að halda hér áfram í kvöld, að einmitt núna, 16. október, eigi að halda áfram í kvöld að ræða málin og það sé ekki ljóst hvenær þessu lýkur. Kannski þetta verði eins og á fundinum sem stóð til sex um morguninn hérna eitt sinn þegar forsetar þingsins tveir — að vísu ekki sá sem hér situr — hæstvirtir píndu umræðu áfram af fullkominni ófyrirleitni og ósanngirni þannig að notuð séu orð hv. formanns menntamálanefndar, Sigurðar Kára Kristjánssonar.