133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:36]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Auðvitað harmar maður að þessi mál séu á fyrstu mínútum komin í þann farveg sem við höfum orðið vitni að hér í dag.

Hv. þm. Mörður Árnason rifjaði það upp að ég hefði sagt að stjórnarandstaðan væri ófyrirleitin og ósanngjörn gagnvart óskum okkar í stjórnarmeirihlutanum og hæstv. menntamálaráðherra um að þessi tvö mál, frumvarpið um Ríkisútvarpið og frumvarpið um Sinfóníuhljómsveitina, yrðu rædd saman, að það yrði ekki orðið við því, og ég stend við þá fullyrðingu mína. Ég skil ekki hvaða hagsmunum það á að þjóna að keyra málið áfram með þeim hætti sem hv. þm. Ögmundur Jónasson berst fyrir hér á fyrstu metrum þessa máls.

Auðvitað er það rétt hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur að stjórnarandstaðan er að munstra sig upp í meiri háttar málþóf um þetta mál. Það á að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir að þetta frumvarp verði að lögum þrátt fyrir allt það sem stjórnarmeirihlutinn hefur gert til þess að verða við beiðnum stjórnarandstöðunnar. Ég hygg að sjaldan hafi menn gengið jafnlangt og rétt fram jafnstóra og hressilega sáttarhönd gagnvart stjórnarandstöðunni í nokkru máli eins og þessu. En það er ekki bara slegið á útrétta sáttarhönd, hún er sko nánast rifin af, það er nú það sem stjórnarandstaðan hefur upp á að bjóða í þessum málum.

Við þurfum nægan tíma til þess að fjalla um þetta mál, sagði hv. þm. Mörður Árnason. Það er allt í lagi, verði ykkur að góðu, þið getið staðið hér og haldið ykkar gömlu, góðu ræður enn einu sinni. En ef þið þurfið svona mikinn tíma verið þið þá ekki að óska eftir því að um málið verði rætt en kvarta síðan yfir því í hinu orðinu að það sé gert á kvöldin.