133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:42]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt annað en að ítreka þá sjálfsögðu sanngirniskröfu, sem kom fram hjá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar hér í dag, að hin almennu fjölmiðlalög verði rædd fyrst og á undan sérstökum lögum um Ríkisútvarpið. Síðan hefur þeirri sjálfsögðu ósk, þeirri sjálfsögðu sanngirniskröfu stjórnarandstöðunnar, sem heilbrigð skynsemi knýr fram, verið svarað með taugaveiklunarlegum og óttablöndnum dylgjum af hálfu stjórnarliða og sérstaklega formanns menntamálanefndar sem sakaði okkur, vegna þessarar sjálfsögðu sanngirniskröfu, um óbilgirni og ósanngirni. Hér var rokið upp með fráleitar ásakanir um málþóf sem að sjálfsögðu liggur (Gripið fram í.) hvergi undir niðri þessari umræðu um inntak þessara mikilvægu mála.

Það að hv. formaður menntamálanefndar gangi hér um eins og fíll í postulínsvöruverslun strax á fyrstu andartökum umræðunnar um fjölmiðlalögin á þessu hausti hlýtur að vera fyrirboði um að ríkisstjórnarflokkarnir ætli að keyra í gegn með góðu eða illu ný lög um fjölmiðla, ný lög um Ríkisútvarp, algjörlega án tillits til þess hvernig er heilbrigt og eðlilegt út frá lýðræðislegum sjónarmiðum að málin gangi fram hér á Alþingi. Þess vegna var það hryggðarefni að hv. formaður menntamálanefndar gengi svo harkalega fram strax í fyrstu skrefunum þegar hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar voru ekkert að gera annað en að bera fram sjálfsagða ósk um rétta röðun við umræður um þessi mál.

Því, hæstv. og virðulegur forseti, er ekki hægt annað en endurtaka þá sjálfsögðu ósk að málið um hina almennu fjölmiðlalöggjöf, lögin um fjölmiðla, verði rædd fyrst og síðan sérstök lög um Ríkisútvarpið. Það er sjálfsagt mál og það ber á engan hátt með sér neitt sem tengist ósanngirni eða óbilgirni af hálfu stjórnarandstöðunnar að fara fram á jafnsjálfsagt mál og það nú er. Hv. formaður menntamálanefndar hlýtur að sjá að sér, koma hér í ræðustól og biðja hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar afsökunar á nokkuð ruddafengnum ummælum um þessa sjálfsögðu sanngirniskröfu um röð mála í umræðum á Alþingi.