133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:14]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það vekur athygli í þessu þriðja frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra, um rekstrarformsbreytingu á Ríkisútvarpinu, að hér er endurtekin frá því í fyrra frumvarpi talan 5 millj. í ákvæði til bráðabirgða I. Til gamans má rifja upp að hv. þm. Hjálmar Árnason hélt að það væru 5 milljarðar í umræðu um þetta sama frumvarp á síðasta þingi. Og hefði ekki veitt af.

Í fyrra var svo komið að menn ræddu um skuldir Ríkisútvarpsins við ríkið vegna framlaga sem ekki hefðu verið goldin í sjóði Sinfóníunnar. Þá var að minnsta kosti ýjað að því eða látið að því liggja að ríkið ætlaði að setja meira hlutafé í þetta en þessar 5 millj. Var talað um hundruð milljóna í því samhengi. Það kemur ekkert fram í þessum texta hér, hvorki lagatextanum né í greinargerðinni né í umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem það ætti þó að vera samkvæmt eðli máls. Hverju sætir þetta?