133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:16]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Nú hefur gefist töluverður tími til að fara í gegnum frumvarpið hjá menntamálaráðherra. Það hefur legið í allt sumar hjá henni vegna þess að því var kastað út af þinginu af tilteknum ástæðum sem við förum kannski aðeins yfir á eftir. Þó stendur þetta eins, það er talað um að minnsta kosti 5 millj. kr. í hlutafé.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er ekkert minnst á þetta fyrirheit. Einungis sagt að eigið fé stofnunarinnar hafi verið neikvætt um 186 millj. kr. í árslok síðasta árs. Síðan er reyndar sagt að málið sé svo skammt á veg komið að það sé vonast til að tillaga að stofnefnahagsreikningi verði lögð fram á næstunni. En það átti að vera bara nokkrum dögum eftir síðasta fund menntamálanefndar, ef ég man rétt. Ég er því ekki ánægður með þetta. Ég tel að það sé kominn tími til að ráðherrarnir, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra segi okkur hvernig þetta á að vera og séu ekki með fyrirheit út í bláinn. Þau hafa ekki reynst vel hjá núverandi menntamálaráðherra.