133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:19]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla því strax í upphafi að frumvarpið sé lítið breytt. Það segir manni náttúrlega ýmislegt um að til lítils er að koma til móts við athugasemdir stjórnarandstöðunnar. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fór gaumgæfilega yfir það að frumvarpið er breytt í töluverðum atriðum, m.a. í ljósi þeirra athugasemda sem hv. stjórnarandstöðuþingmenn settu fram t.d. í menntamálanefnd. Svo kemur hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson og segir: Frumvarpið er lítið breytt. Það er verið að taka inn athugasemdir hv. þingmanna út stjórnarandstöðunni.

Varðandi atriði sem snertir auglýsingamarkaðinn er alveg rétt að farið var gaumgæfilega yfir hvaða fyrirkomulag væri hentugast. Menn mátu það svo að ekki væri rétt að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Ekki væri rétt að hækka útvarpsgjaldið sem því nemur, heldur var hlustað m.a. á talsmenn neytenda, talsmenn Samtaka verslunar og þjónustu sem ítrekað (Forseti hringir.) töluðu gegn því að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði.