133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:21]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem betur fer eru margir ósammála hv. þingmanni, m.a. Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda þar sem þeir hvetja eindregið til þess að frumvarpið verði samþykkt. Menn vilja sjá breytingar á rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins og þeir sjá tækifæri í þeirri breytingu sem felst í þessu varðandi Ríkisútvarpið ohf. Það eru tvímælalaust tækifæri. Tækifæri fyrir innlenda dagskrárgerð. Tækifæri fyrir menninguna okkar. Tækifæri til að miðla ákveðnum þáttum enn betur til samfélagsins. Ríkisútvarpið getur ekki lengur verið í staðnaðri umgjörð og stöðnuðu formi. Það lifir á síbreytilegum markaði og það verður að fá tækifæri til að vinna og sinna þeim kröfum sem við gerum til Ríkisútvarpsins. Einmitt á þessum markaði.

Ég hef líka sagt varðandi auglýsingarnar að það er ekki til lengri tíma heilagt í mínum huga að Ríkisútvarpið verði algjörlega óbundið á auglýsingamarkaði. En að þessu sinni tel ég mikilvægt að (Forseti hringir.) að Ríkisútvarpið verði ekki tekið af auglýsingamarkaði. Miklu frekar að það verði sett eins og það er í dag, út í (Forseti hringir.) ohf.