133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:24]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Ég mótmæli því, virðulegi forseti, að ætlunin sé að selja Ríkisútvarpið og frumvarpið auðveldi það. Þvert á móti. Það er alveg jafnauðvelt að leggja niður Ríkisútvarpið í núverandi mynd og koma fram með tillögu til að selja það. Þetta eru ekkert annað en útúrsnúningar. Þetta eru gamlar þreyttar lummur af hálfu hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Gamlar þreyttar lummur. Mér telst svo til að hv. þingmaður sé búinn að tala hér í einar tíu klukkustundir um frumvarpið og ekkert nýtt hefur komið fram. Og þetta er mælskumaður mikill. En ekkert nýtt kemur fram annað en að sá fræjum tortryggni í málinu í staðinn fyrir að sjá tækifærin sem felast í frumvarpinu. Tækifæri fyrir íslenska menningu og innlenda dagskrárgerð. Við verðum að fara að horfast í augu við framtíðina, hv. þingmaður.