133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:25]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var að vísa í umræðu á Alþingi og í staðhæfingar sem komu fram á Alþingi frá samflokksmönnum hæstv. ráðherra. Ég mótmæli því að ég hafi ekki flutt efnislega og málefnalega ræður um þetta mál. Ég hef lagt mig fram um að kynna mér málefnið, ekki bara hér á landi heldur á Norðurlöndum og víðs vegar um heiminn og reynt að færa þær upplýsingar og fróðleik sem ég hef aflað inn í umræðuna á Alþingi.

Ég mótmæli því líka að í þessum kerfisbreytingum sem slíkum felist einhver sérstök tækifæri fyrir Ríkisútvarpið. Þvert á móti er verið að takmarka slík tækifæri. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur ráðherrann kynnt sér þær tillögur sem fram hafa komið af hálfu stjórnarandstöðunnar um breytingar á stjórnsýslu Ríkisútvarpsins sem svara þeim kröfum sem hafa komið fram innan stofnunarinnar? Ekki frá einum manni eða þeim sem standa í kringum útvarpsstjórann heldur frá starfsmannafélögum og fólkinu (Forseti hringir.) sem þar starfar almennt. Hefur ráðherrann kynnt sér það frumvarp (Forseti hringir.) og þær tillögur? Hvers vegna má ekki ræða (Forseti hringir.) þær samhliða þessu frumvarpi og senda þær samhljóða til umsagnar?