133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:28]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er hægt að tryggja fjárhaginn með því fyrirkomulagi sem getið er um í frumvarpinu í gegnum útvarpsgjaldið, í gegnum auglýsingatekjur og þær tekjur sem Ríkisútvarpið er að vinna sér, bæði eins og fyrirkomulagið er í dag og eins og það verður síðan í nýju og breyttu fyrirkomulagi.

Að sjálfsögðu mun Ríkisútvarpið verða sjálfstætt. Það kveður alveg skýrt á um það að við erum að leggja niður útvarpsráð. Við erum að koma með faglega rekstrarlega stjórn inn í Ríkisútvarpið sem mun hafa eftirlit með rekstri félagsins. Ný framkvæmdastjórn mun ekki skipta sér af dagskránni. Það er verið að skera á þessi pólitísku tengsl. (ÖJ: …maður sem er ráðinn.) Öðruvísi mér áður brá í umræðum í þessum þingsal. Það hefur oft verið tilefni til að ræða málefni Ríkisútvarpsins og hv. þingmaður hefur verið framsögumaður að því, m.a. vegna undirskriftalista og fleira sem (Forseti hringir.) hefur átt sér stað í Ríkisútvarpinu. En öðruvísi mér áður brá. Núna er málum þannig fyrir komið að nokkuð mikil sátt er um að ýta þessu máli áfram í samfélaginu. En Ögmundur Jónasson, hv. þingmaður, þverskallast við.