133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:30]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra er greinilega ekki alveg með það á hreinu hver er í andsvörum við hæstv. ráðherra. Ég var að spyrja um fjárhag stofnunarinnar og hvernig það mætti vera að stofnunin gæti orðið sjálfstæð með þann fjárhag sem hún hefur nú. Það liggur ljóst fyrir að hæstv. ráðherra veit að tekjuþróun stofnunarinnar hefur ekki fylgt þeim breytingum sem orðið hafa í umhverfi hennar og þess vegna hefur hún orðið stöðugt veikari og það er þess vegna sem ýmsir spyrja sig: Hefur það verið meðvituð stefna ríkisstjórnarinnar að veikja stofnunina svo að ýmsir séu farnir að kalla á að eitthvað verði að gera bara til þess að reyna að bjarga því það geti aldrei orðið verra? Hæstv. ráðherra notaði sjálf orðalagið „aldrei verr statt en nú“. En nú er staða Ríkisútvarpsins þannig að hún getur ekkert verri orðið. Ef þetta væri hlutafélag á almennum markaði væri löngu búið að gera apparatið upp. Það að hefja nýtt rekstrarform með slíkri stöðu mun því að sjálfsögðu ekki tryggja neitt sjálfstæði heldur eingöngu tryggja það að stofnunin, því miður, verður enn veikari en hún er nú.