133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[18:14]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það eru deilur um það innan þingflokks Framsóknarflokksins hvaða stefnu Framsóknarflokkurinn hafi í málinu því að túlkun ályktunar sem samþykkt var á næstsíðasta flokksþingi Framsóknarflokksins er ekki einhlít.

Framsóknarmenn sögðu sl. vor það sama og hv. þm. Dagný Jónsdóttir segir hér, að það sé einhvers konar pólitísk sátt um að selja ekki Ríkisútvarpið. Ég kannast ekki við hana nema úr yfirlýsingum stjórnarliða. En það er auðvitað alveg klárt að þrír hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa borið fram um það frumvarp hér að leggja Ríkisútvarpið niður og koma starfsemi þess fyrir kattarnef eða a.m.k. eitthvert annað þar sem hún kæmist fyrir í einkarekstri. Það eru engir smá þingmenn, það eru þeir Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, sem nú stefnir á 4. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins eða réttara sagt á 2. sætið á öðrum hvorum lista Sjálfstæðisflokksins hér í borginni, það er Birgir Ármannsson, sem mun hafa mjög svipaða drauma um sæti í prófkjörinu sem nú er fram undan, og það er Pétur H. Blöndal, sem stefnir á ráðherrasæti á þessum sama lista, þannig að þetta eru nokkuð voldugir menn.

Ég hef aldrei haldið því fram að það standi til á næstu árum að einkavæða Ríkisútvarpið. Ég tel hins vegar að þetta sé skref í áttina og ég bendi ósköp einfaldlega á rökstuðning Péturs Blöndals sjálfs um það mál á sínum tíma, þegar hann var að því spurður þá sagðist hann styðja þetta frumvarp vegna þess að hann taldi að það væri þó skref í áttina.

En að lokum væri fróðlegt að vita hvað hv. þm. Dagný Jónsdóttir segir um það sem ég ræddi um sjálfstæði Ríkisútvarpsins, um ríkisstjórnarmeirihlutann í útvarpsráði og um það að hann reki og ráði útvarpsstjóra eftir hentugleikum.