133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[18:16]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Mörður Árnason kom hér inn á að túlkun væri misjöfn á stefnu Framsóknarflokksins varðandi Ríkisútvarpið. Ég tel að túlkunin sé mjög skýr.

Það segir orðrétt í stefnu Framsóknarflokksins, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu og sjálfstæði þess eflt. Hraða ber endurskoðun laga um Ríkisútvarpið þar sem m.a. stjórnskipulag stofnunarinnar verður endurskilgreint og mið tekið af nýju fjölmiðlaumhverfi. Skoðaðar verði mismunandi leiðir til að standa undir rekstrarkostnaði.“

Það er náttúrlega meginatriði í þessu og í frumvarpinu að fyrirvari varðandi söluna er numinn á brott til að leggja áherslu á að ekki eigi að selja Ríkisútvarpið og jafnframt að tryggja að nýja lagasetningu þurfi frá Alþingi til að svo geti orðið. Þess vegna tekur 1. gr. af öll tvímæli um sölu Ríkisútvarpsins og mér finnst það vera í raun og veru stærstu tíðindin í því máli sem hér er fjallað um. Það hefur ekki verið þannig í umræðunni undanfarin ár að sátt hafi verið um Ríkisútvarpið og eins og hv. þm. Mörður Árnason kom inn á hér áðan að þetta væru þrír hv. þingmenn sem gætu hugsað sér að selja Ríkisútvarpið. Ég man ekki betur en hér í umfjöllun á hinu háa Alþingi síðustu tvö ár hafi formaður menntamálanefndar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sagt að ekki standi til að selja Ríkisútvarpið og ég ætla ekki að fara að túlka orð hans mikið meira en hins vegar trúi ég og treysti þeim orðum.

Það er því alveg ljós vilji beggja stjórnarflokka í þessu máli, það stendur ekki til að selja Ríkisútvarpið og ég er þess reyndar fullviss að það mun lifa lengi í eigu okkar allra, og ég veit að það er heldur ekki vilji hv. þm. Marðar Árnasonar.