133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[18:21]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið hér við umræðuna er þetta ekki í fyrsta skipti sem við ræðum þetta málefni, þetta er þriðja frumvarpið sem fram kemur á tiltölulega skömmum tíma um Ríkisútvarpið og hlutafélagavæðingu þess. Það var talað um það fyrr í dag að hverjum steini hefði verið velt við, eins og það var orðað, en svo vill til að þegar steinum var velt við sáu menn ástæðu til að gera breytingar á frumvarpinu og viðurkenndu þar með hve gallað það hefði verið.

Þegar frá var horfið sl. vor í miklu ósætti um þetta frumvarp bregður svo við að í Morgunblaðinu birtist opið bréf til alþingismanna frá þremur fyrrverandi menntamálaráðherrum sem vöruðu allir við því í þessari sameiginlegu grein sinni, sameiginlega bréfi til alþingismanna, að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi.

Þetta opna bréf er ekki langt, það eru rúmlega 20 línur á blaði sem ég hef fyrir framan mig og ætla ég að lesa það hér upp, með leyfi forseta:

„Íslendingar teljast með helstu velmegunarþjóðum heimsins og halda því til jafns við stórþjóðir um efnisleg gæði.

En auður þjóðar felst ekki einungis í mælanlegum markaðsverðmætum. Varla greinir menn á um að ríkidæmi þjóðar er ekki síður metið á mælikvarða andlegra verðmæta, skapandi listmenningar og auðugs þjóðlífs, þar á meðal þroskaðrar þjóðtungu og bókmennta.

Íslensk þjóð er fámenn, búsett á eylandi á ystu nöfum Norður-Atlantshafsins, fjarri meginlandi Evrópu. Á Íslandi hefur samt þróast þjóðmenning, sem vissulega er mótuð af samevrópskum menningaráhrifum og lífsviðhorfum, en er eigi að síður sér á parti, mörkuð sérkennum, sem ráðast af legu landsins, náttúrufari þess og búsetuskilyrðum í harðbýlu landi.

Öll viljum við að Íslendingar haldi sínu í samskiptum við aðrar þjóðir. Það gerum við best með ræktarsemi við þjóðlega menningu okkar, enda er menningarrækt smáþjóðum höfuðnauðsyn. Þann vilja geta Íslendingar ekki síst sýnt í verki með því að styrkja menningarstofnanir þjóðarinnar, mennta- og menningarsetrin, skólana og söfnin, sem löngum hefur verið litið á sem samfélagseign, m.a. Þjóðminjasafn Íslands, Þjóðleikhúsið og Ríkisútvarpið. Við, sem stöndum að þessu bréfi, teljum að samfélagseignir á menningarsviði séu ekki söluvara.

Á Alþingi er nú til umræðu stjórnarfrumvarp til breytinga á gildandi útvarpslögum. Þar er m.a. lagt til að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi. Nái sú tillaga fram að ganga væri stigið varhugavert spor, enda ljóst að hlutafélagsformið er sniðið að fésýsluþörfum og hentar ekki menningarstofnun í almannaeigu. Þótt til kæmi sú varúðarregla að banna sölu slíks hlutafélags með lögum, er hægurinn hjá, þótt síðar yrði, að nema sölubannsákvæðið úr gildi. Þá opnast leið til þess að bjóða hlutabréf stofnunarinnar til sölu. Fésýslumenn, þar á meðal alþjóðleg fégróðafyrirtæki, færu þá að kaupslaga með eina mikilvægustu menningarstofnun þjóðarinnar, en í raun er engin leið að meta verðgildi hennar í peningum, því að menningarverðmæti eru í eðli sínu ómetanleg. Það á ekki síst við um eignasamsetningu Ríkisútvarpsins.

Við undirritaðir ítrekum það, sem fyrr hefur komið fram, að við teljum að best fari á því að Ríkisútvarpið haldi stöðu sinni sem sjálfstæð þjóðareign og mælum gegn því að breyta rekstrarformi þess í hlutafélag. Sérstaklega leyfum við okkur að beina því til alþingismanna að þeir greini muninn sem er á þjóðmenningarstofnun og viðskiptafyrirtæki.“

Undir þetta opna bréf til Alþingis sem birtist í Morgunblaðinu hinn 1. júní sl. rita nöfn sín þrír fyrrverandi menntamálaráðherrar, þ.e. Ingvar Gíslason, Ragnar Arnalds og Sverrir Hermannsson.

Þeir eru komnir úr þremur stjórnmálaflokkum, Ingvar Gíslason var menntamálaráðherra úr Framsóknarflokki, Ragnar Arnalds fyrir Alþýðubandalagið og Sverrir Hermannsson fyrir Sjálfstæðisflokkinn en sem kunnugt er er hann einn helsti frumkvöðull þess að Frjálslyndi flokkurinn varð til.

Það má nefna fleiri menn úr menningarlífinu sem hafa varað við þessum breytingum, nú síðast má vísa til ummæla Hrafns Gunnlaugssonar sem lengi gegndi mikilvægri stöðu innan Ríkisútvarpsins og hefur látið til sín taka í kvikmyndaiðnaðinum eins og allir þekkja. Hann hafði stór orð uppi um þetta frumvarp í fréttaumfjöllun í Ríkisútvarpinu ekki alls fyrir löngu. Fleiri mætti að sjálfsögðu nefna til sögunnar, ekki aðeins varðandi Ríkisútvarpið heldur Sinfóníuna, ég nefni þar Jón Þórarinsson, sem eftir því sem ég veit best hefur gegnt trúnaðarstöðum á vegum Sjálfstæðisflokksins.

Það er því víða sem fram hefur komið gagnrýni á þetta frumvarp og þær breytingar sem hér er verið að leggja til. Þá hafa samtök launafólks varað við frumvarpinu og bent á að verið sé að skerða réttindi starfsfólksins. Það er nefnilega ekki rétt sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að svo sé ekki gert með þessu frumvarpi. Hér er að finna sérákvæði sem takmarka rétt til töku lífeyris úr B-deild LSR, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, samhliða starfi. Það er ekki einhlítt. Það á t.d. við hjá starfsmönnum í hinum einkavædda síma, Landssímanum, að þar átti þetta ákvæði ekki við þannig að þarna er verið að setja takmarkandi ákvæði.

Varðandi biðlaunaréttinn er hann einnig takmarkaður en í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Meginreglan er sú að réttur til biðlauna flyst ekki til hlutafélagsins.“

Síðan er gerð undanþága frá þessari meginreglu og sett inn tímamörk á hana.

Þá hef ég nefnt að engin trygging er fyrir því að nýráðnir starfsmenn Ríkisútvarpsins fái aðild að sambærilegum lífeyriskjörum og þeir starfsmenn sem nú eru í starfi hjá stofnuninni. Maður spyr sjálfan sig hvort stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi leggist svo lágt að setja fram lagafrumvarp sem er beinlínis sniðið að því að skerða og rýra kjör starfsfólksins, sem óumdeilanlega er gert með þessu frumvarpi.

Annað er að við höfum verið að þróa löggjöf í tengslum við opinberan rekstur á undanförnum áratugum og það hafa verið sniðin lög til þess að þjóna þeim tilgangi, upplýsingalög, stjórnsýslulög og síðan að sjálfsögðu ýmis réttindi sem snúa að starfsfólkinu, þar á meðal sitthvað sem snýr að starfsöryggi. Allt þetta á að skerða, grafa undan og skerða. Ég velti því fyrir mér hvort stjórnarmeirihlutinn hafi hugsað þetta mál alveg til enda.

Hér hefur verið staðhæft, bæði af hálfu hæstv. ráðherra og einnig þingmanna úr stjórnarliðinu, að ekki standi til að selja Ríkisútvarpið. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir sagði áðan að viðsnúningurinn hjá Framsókn — menn höfðu talið margir, þar á meðal ég, að þeir mundu standa í fæturna í þessu máli — hefði orðið þegar Framsókn áttaði sig á því að ekki var vilji innan Alþingis að selja Ríkisútvarpið. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég held að þetta sé alveg rétt. Það er ekki vilji í þinginu eins og það er skipað núna að selja Ríkisútvarpið. Það hafa að vísu komið fram frumvörp þess efnis sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa flutt, þar á meðal hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sem var talsmaður hlutafélagavæðingar Ríkisútvarpsins. Hann hefur lagt fram frumvarp ásamt hv. þm. Birgi Ármannssyni og Pétri H. Blöndal um að selja Ríkisútvarpið. Það er ekki beint trúverðugt. En ég tek undir að það er ekki meirihlutavilji eins og sakir standa til að selja Ríkisútvarpið. En undirliggjandi er þessi krafa, og ég hef rakið ályktanir Sjálfstæðisflokksins í gegnum tíðina hvernig hann hefur alltaf jafnt og þétt verið að koma fram, sá pólitíski vilji.

Síðan verðum við náttúrlega að sýna hv. þm. Pétri H. Blöndal þá virðingu að taka hann alvarlega þegar hann sagði í atkvæðagreiðslu sl. vor eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Í því frumvarpi sem við greiðum atkvæði um er verið að stofna hlutafélag um Ríkisútvarpið. Starfsmenn þess verða ekki lengur opinberir starfsmenn. Það er jákvætt. Hins vegar vildi ég gjarnan ganga lengra. Ég hef lagt fyrir Alþingi frumvarp ásamt fleirum um að selja Ríkisútvarpið og ganga síðan þá braut til enda. Ég held að ekki sé meiri hluti fyrir því í Alþingi sem stendur að samþykkja þá leið en ég hygg að eftir svona tíu til fimmtán ár muni menn verða jafnhissa á því hér á hinu háa Alþingi að til skuli vera opinberir starfsmenn sem stunda fréttamennsku og menn eru hissa á því í dag að það hafi þurft opinbera starfsmenn til að stunda bankastarfsemi. Þar sem þetta eru ákveðin skref á þeirri leið að einkavæða RÚV segi ég já.“

Þetta var atkvæðaskýring og við skulum bara taka þetta alvarlega. Það er mergurinn málsins að verið er að setja Ríkisútvarpið í réttu pakkninguna til að halda áfram. Það er alla vega sú krafa sem hefur dunið á Sjálfstæðisflokknum í langan tíma að svo verði gert. Ég endurtek hins vegar að ég hef engar efasemdir um að hæstv. núverandi menntamálaráðherra muni beita sér fyrir slíku. Ég tek hennar orð alveg trúanleg hvað þetta snertir. En hinu verður ekki hnikað í mínum huga að sporin hræða. Sá hefur verið gangurinn á nánast allri einkavæðingu sem fram hefur farið. Þegar bankarnir voru gerðir að hlutafélögum var að finna ákvæði í lögum um að sérstaka heimild Alþingis þyrfti ef til stæði að selja þá. Þetta um að ekki standi til að selja Ríkisútvarpið.

Hæstv. menntamálaráðherra segir að þetta sé sett fram til þess að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins. Hvernig væri hægt að ímynda sér að staða Ríkisútvarpsins yrði styrkt, er það með því að tryggja því meiri tekjur? Er það með því að skapa því hagstæðari ramma þannig að það geti farið betur með þá fjármuni sem það á annað borð hefur á sinni hendi? Er það það sem gerist? Horfum á báða þessa þætti.

Ég tók eftir því að hæstv. menntamálaráðherra sagði í inngangsræðu að enda þótt Ríkisútvarpið byggi núna við auglýsingatekjur, hefði auglýsingar og hefði tekjur af auglýsingum, þá sæi hún fyrir sér — ég held að ég hafi tekið rétt eftir — að á komandi árum kynni að verða breyting þar á. Hún var ekki að boða neinar, hæstv. ráðherrann, breytingar sjálf en var þarna með vangaveltur um framtíðina, hver líkleg framtíðarþróun yrði hvað þetta snertir. Hvað mundi þetta þýða? Þetta mundi þýða minni tekjur fyrir Ríkisútvarpið en það hefur núna. Hvað þá með aðra möguleika? Jú, á Ríkisútvarpið að eiga möguleika á því að fara inn í aðrar lendur, tengdar lendur? Nei. Það mundi grafa undan þeirri þjóðarsátt sem ríkir um Ríkisútvarpið ef það færi inn á svið þar sem aðrir aðilar eru að sýsla. Með öðrum orðum er ekki verið að auka sveigjanleikann heldur eru þetta takmarkandi þættir hvort tveggja. Ég velti því fyrir mér hvort það er rétt að hugsa á þessa vísu.

Þetta er uppi í rauninni gagnvart öllum opinberum rekstri nú um stundir, að honum eru settar mjög strangar skorður. Við þekkjum það hvernig fór með Landmælingar á sínum tíma. Þar komu þessar takmarkanir inn. Ef fyrirtæki kemur til hugar og framkvæmir þá hugmynd að setja upp rekstur á samkeppnissviði er höggvið á möguleika fyrirtækisins eða stofnunarinnar til að færa út kvíarnar. Þetta getur verið hamlandi, getur verið takmarkandi, getur átt rétt á sér í sumum tilvikum en ekki öllum. Þarna held ég að menn eigi ekki að hugsa mjög ferkantað þannig að við erum ekki að tala um auknar tekjur og meiri sveigjanleika fyrir hönd stofnunarinnar í þessum skilningi.

Ég vek einnig athygli á því að jafnan þegar þessi mál hefur borið á góma á Alþingi, og ég hef spurt fulltrúa stjórnarandstöðunnar hvort þeir sjái fyrir sér að meira fjármagn renni til Ríkisútvarpsins, hefur svarið jafnan verið á þá leið að svo sé ekki heldur sé þetta spurning um hagræðingu og með hagræðingu, með því að nota fjármuni stofnunarinnar betur, muni hagur hennar batna og rýmkast. Þetta er hugsunin.

Þá er komið að því hvað það er raunverulega sem á að gera. Það á að laga reksturinn að því sem gerist almennt á markaði, það á að gera rekstur Ríkisútvarpsins svipaðan því sem gerist hjá einkafyrirtækjum á markaði. Þannig er útvarpsstjóri gerður að einhvers konar forstjóra. Hann á að ráða algerlega yfir mannahaldinu og hann á líka að ráða yfir dagskrárgerðinni. Hver skyldi ráða þennan forstjóra Ríkisútvarpsins? Það er pólitískt kjörið útvarpsráð sem endurspeglar stjórnarmeirihlutann á Alþingi hverju sinni. Finnst mönnum þetta vera skref fram á við? Þetta er ein megingagnrýni sem fram hefur komið á Ríkisútvarpið í tímans rás.

Í framhjáhlaupi langar mig til að vísa í það sem hæstv. menntamálaráðherra sagði áðan. Hún var að tala um sköpunarkraftinn og hina nýju möguleika og samanburðinn við Norðurlönd, hvernig þau höguðu þessum málum. Þá vil ég vekja athygli á því að þar er ólíku saman að jafna. Við verðum að horfa á söguna og allar forsendur og aðstæður í því ljósi sem þær birtast okkur, t.d. í Finnlandi, þar sem finnska útvarpið var upphaflega einkastofnun. Það var stofnun sem var í einkaeign og svo er allar götur frá árinu 1926 fram til 1934. Þá er gerð sú breyting að ríkið kemur inn í þessa stofnun þannig að þar eru allt aðrar forsendur. Menn voru ekki að taka ríkisútvarp og gera það að hlutafélagi heldur er þetta á hinn veginn. Það var einkafyrirtæki sem var fært undir almannavaldið.

Síðan hefur verið vísað í Noreg, að þar sé hlutafélag og það er alveg rétt. Þar er hlutafélag og því var breytt með lögum árið 1996. Þá vil ég nefna, af því að við vorum að tala um stjórnarfyrirkomulagið, að þar eru í útvarpsráði þrír fulltrúar af níu kjörnir af starfsmönnum, svo dæmi sé tekið um að forsendur eru ekki sambærilegar. Síðan er það Danmarks Radio. Það ríkisútvarp á Norðurlöndum, það almannaútvarp á Norðurlöndum sem hefur staðið sig best í hinni margrómuðu samkeppni, selt flesta framhaldsmyndaþætti úr sjónvarpi, það er ríkisstofnun. Svo er okkur birt sú auglýsingabrella í haust að því aðeins verði samkomulag sem menntamálaráðuneytið og Ríkisútvarpið hafi gert um dagskrárefni á komandi árum að veruleika að við samþykkjum áður frumvarp um að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Hvers konar tal er þetta og hvernig stenst þetta samanburð við Danmarks Radio þar sem gerður hefur verið svipaður samningur án þess að það hafi verið gert að hlutafélagi?

Það er margt annað sem mætti taka til samanburðar úr almannaútvarpi á Norðurlöndum og þá ekki síst þætti er varða stjórnsýsluna og stjórnarfyrirkomulagið. Í Svíþjóð er t.d. kappkostað að búa svo um hnúta að kosningaúrslit endurspegli ekki stjórn og pólitísk yfirráð yfir sænska útvarpinu gagnstætt því sem hér er uppi á teningnum.

Við heyrðum í vor frá ýmsum samtökum listamanna og sáum síðan í greinaskrifum útvarpsstjóra, Páls Magnússonar, að það yrði að aflétta óvissunni, þeirri óvissu sem ríkti um Ríkisútvarpið. Ég tek undir þetta, það þarf að gera það. En hvernig verður það gert? Verður það gert með því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi sem er fjármagnað með nefskatti? Halda menn, og þetta bið ég menn um að hugsa um í mikilli alvöru, að það verði þjóðarsátt um þennan nefskatt, um útvarp sem er undir pólitískum meirihlutahæl stjórnarmeirihlutans hverju sinni sem ræður útvarpsstjóra, getur rekið hann, útvarpsstjóra sem ræður auk þess yfir allri dagskrárgerðinni og hann er háður því að pólitískt skipað útvarpsráð geti rekið hann. Eru menn virkilega trúaðir á það, trúa menn því að þjóðin muni sætta sig við slíkan nefskatt? Menn skulu bara hugsa þetta mál til enda. Og það er ekki ég einn sem tala í þessa veru. Við höfum heyrt ritstjóra Fréttablaðsins, fyrrv. formann Sjálfstæðisflokksins, Þorstein Pálsson, fyrrv. forsætisráðherra, núverandi ritstjóra, vara við þessu og einmitt á þeim forsendum að verið sé að sundra þjóðarsátt.

Hæstv. menntamálaráðherra vék að þessari þjóðarsátt í ræðu sinni fyrr í dag en í öðru samhengi. Það var fyrst og fremst í fyrirtækjasamhenginu, að ef Ríkisútvarpið færi inn á svið sem önnur fyrirtæki eða aðrar stofnanir væru að sýsla með væri ástæða til að óttast að um það skapaðist ekki sátt. En ég spyr um þessa sátt. Ég spyr þá ágætu listamenn sem hafa hvatt til þess að óvissunni sé eytt hvort þeir hafi hugsað þessa hugsun alveg til enda. Ég óttast að menn hafi ekki gert það.

Síðan spyr ég: Er ekki ástæða til að hlusta á það sem Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins hafa verið að segja og álykta? Er ekki ástæða til að hlusta á fólk sem sér ástæðu til að stofna samtök til styrktar og stuðnings Ríkisútvarpinu, hvað það segir? Í yfirlýsingu frá Hollvinum Ríkisútvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Nú eru allar líkur á því að nýtt frumvarp um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins verði samþykkt á Alþingi við upphaf þings. Við skulum vona að svo verði ekki.“

En þetta eru áhyggjur þessara samtaka. Og áfram, með leyfi forseta:

„Samtökin okkar eru trú þeirri meginstefnu sinni sem verið hefur frá upphafi, að berjast gegn einkavæðingu Ríkisútvarpsins og gegn hverju skrefi sem kynni að verða stigið í þá átt, hvort sem það væri svokölluð hlutafélagavæðing eða eitthvað annað. Hollvinasamtökin hafa ávallt lagt áherslu á að snúa vörn í sókn og efla Ríkisútvarpið til að gegna því hlutverki sem það hefur samkvæmt núgildandi lögum svo það megi áfram vera ríkisútvarp í almannaeign og hornsteinn menningar og lýðræðis í landinu. Fulltrúar Hollvinasamtakanna hafa m.a. kynnt starfsemi samtakanna í útvarpi, sjónvarpi og með blaðaskrifum. Fari svo að Ríkisútvarpið verði hlutafélagavætt með lögum nú væri eina von okkar sú að breytingar yrðu á ríkisstjórn næsta vor og sú nýja stjórn gæti numið þau ólög úr gildi. Við munum berjast áfram gegn því að fleiri spor verði stigin á þessari óheillabraut til einkavæðingar. Við hvetjum félagsmenn í samtökunum til að mæta“ — svo er hvatning um að mæta á fund — „til þess að ræða þá stöðu sem uppi er.“

Ég sótti þennan fund sem var mjög fróðlegur. Þarna voru flutt ágæt erindi og allir sem töluðu höfðu uppi varnaðarorð af þessu tagi. Það er að vissu leyti breyting frá því sem áður var. Vegna þess að á fyrri fundum sem ég hef sótt, opnum fundum sem Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins hafa efnt til, höfðu verið uppi ýmsar vangaveltur um ágæti þess að breyta rekstrarfyrirkomulaginu. Mér finnst þótt ég geti ekkert fullyrt um það, en það er mín tilfinning að tóninn hafi heldur verið að breytast hvað þetta snertir.

Nú er það svo að Hollvinasamtökin og einstaklingar sem vilja Ríkisútvarpinu vel vilja gera ýmsar breytingar á stjórnsýslunni og færa ýmislegt til betri vegar. Ég vísa í þingmál sem allir þingflokkar stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram hér á Alþingi. Það hafa verið mismunandi áherslur en þegar á heildina er litið hefur þar verið að finna samhljóm. Í máli allra sem talað hafa af hálfu stjórnarandstöðunnar hefur verið sett fram sú ósk að það verði reynt að byggja á víðtækri sátt um framtíð Ríkisútvarpsins. Þess vegna er það dapurlegt að ríkisstjórnarflokkarnir skuli berja höfðinu við steininn og hvika hvergi frá þeirri ákvörðun sinni að vilja gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum sett fram frumvarp um breytingar á Ríkisútvarpinu þar sem gert er ráð fyrir allróttækum breytingum á sjálfri stjórnsýslu stofnunarinnar. Við viljum færa ákvarðanir sem lúta að henni, að stjórnsýslunni, inn fyrir veggi stofnunarinnar í ríkari mæli en nú er. Við viljum leggja útvarpsráð niður í þeim skilningi sem það starfar nú eða er gert ráð fyrir að starfi samkvæmt nýjum lögum. Þess í stað viljum við efna til eins konar dagskrárráðs sem geti komið ábendingum á framfæri við stofnunina. Það sé ekki með einhlít völd á sinni hendi heldur sé þetta fyrst og fremst lýðræðislegur vettvangur sem hleypi mismunandi sjónarmiðum að. Þar viljum við ekki, fremur reyndar en er í þessu frumvarpi sem ríkisstjórnin talar fyrir, klippa á tengslin við Alþingi. Það viljum við ekki. Við viljum að þingið kjósi einhverja af fulltrúunum í þessu dagskrárráði. En við viljum koma í veg fyrir að dagskrárráðið endurspegli stjórnarmeirihlutann. Við erum með hugmyndir um að samtök listamanna, neytendasamtök og sveitarfélögin í landinu komi að við skipan í ráðið.

Síðan erum við með hugmyndir um að í stað þess — ég skal bara lesa það upp hverjir það eru sem við viljum að verði í þessu dagskrárráði. Hér segir í 5. gr., með leyfi forseta:

„Menntamálaráðherra skipar í dagskrárráð Ríkisútvarpsins eftir hverjar alþingiskosningar einn fulltrúa tilnefndan af hverjum þingflokki,“ — ekki hlutfallshugsunin og síðan áfram með leyfi forseta: — „tvo fulltrúa tilnefnda af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn fulltrúa tilnefndan af Neytendasamtökunum, einn fulltrúa tilnefndan af Bandalagi íslenskra listamanna, útvarpsstjóra, framkvæmdastjóra hljóðvarps og sjónvarps og einn fulltrúa tilnefndan af starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Dagskrárráð skiptir með sér verkum.“

Síðan er útlistun á stjórnsýslunni. Ég ætla ekki að fara að lesa það allt saman. En vil vekja athygli á einni annarri nýbreytni sem þarna er. Það er um fjármögnun stofnunarinnar. Við teljum að það eigi að byggja á auglýsingatekjum. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að mér finnst auglýsingar hvorki slæmar né góðar. Það fer allt eftir því hvernig þær eru gerðar. Góðar auglýsingar og upplýsandi eru nauðsynlegt ágætisefni. Hins vegar ef við erum að tala um kostun eða áróðurskenndar innihaldslausar og misvísandi auglýsingar, þá eru þær að sjálfsögðu til skaða. En við teljum að Ríkisútvarpið í okkar fámenna landi verði að treysta og reiða sig á auglýsingar að einhverju leyti og það til frambúðar.

En það þurfa að koma peningar annars staðar frá. Þar höfum við lagt til að gjöldin til Ríkisútvarpsins verði tengd fasteign. Verði fasteignatengd. Um það verði settar sérstakar reglur, sanngjarnar reglur um hvernig megi haga þeirri gjörð. En það er prinsippafstaða að skoða eigi iðgjöld til Ríkisútvarpsins sem tengist fasteign, en alls ekki þennan nefskatt. Hann frábiðjum við algerlega.

Ég hef eflaust upplýst það áður við fyrri umræðu um þetta mál að í nefnd sem ég veitti forstöðu og var starfandi á árunum 1989 og 1990 á vegum þáverandi ríkisstjórnar um útvarpslög, fórum við mjög rækilega yfir fjármögnunarleiðir og fjármögnunarmöguleika. Það kom á daginn að ríkisútvarpsstöðvar, þar sem Ríkisútvarpið er hvað sterkast, í Danmörku, Bretlandi og víðar, reiddu sig á iðgjöld. Vildu halda sér algjörlega aðgreindum frá ríkisstjórn og fjárveitingavaldi, halda sjálfstæði sínu. Niðurstaðan varð þá sú að fara ekki með þetta inn í fjárlög og ekki inn í þennan nefskattsfarveg sem ríkisstjórnin hefur haldið inni. Ég spái því að það eigi eftir að verða miklar umræður og miklar deilur um það mál áður en yfir lýkur.

Það hefur verið hálfdapurlegt að fylgjast með því hvernig forsvarsmenn Ríkisútvarpsins og hæstv. menntamálaráðherra hafa verið að reyna að undirbúa jarðveginn fyrir þessa umræðu nú í haust. Ég hef áður vísað til þessa samnings, hann er settur fram í því samhengi að það eigi að hlutafélagavæða. Eftir því sem ég heyrði best þá er eitthvert samhengi hérna á milli. Þannig var þetta alla vega kynnt þjóðinni. Samhengi á milli þess að gera samning til frambúðar um dagskrárefni í Ríkisútvarpinu, annars vegar þess og hins vegar að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi. Það var sett fram í einum pakka eftir því sem ég heyrði best.

Síðan hef ég áður gagnrýnt skoðanakönnun sem Ríkisútvarpið fékk Gallup til að gera þar sem spurt var afar misvísandi og efnið síðan sett fram á afar misvísandi hátt. Það var byrjað á að staðhæfa að til stæði að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi í eigu ríkisins og í framhaldinu var síðan spurt hvort fólk væri almennt ánægt eða óánægt, „með þetta nýja rekstrarfyrirkomulag.“ Með þessari spurningu var verið að gefa í skyn að þetta nýja rekstrarfyrirkomulag, þ.e. hlutafélagavætt Ríkisútvarp, væri þegar orðið að staðreynd. Í framhaldinu var síðan spurt eins og þetta væri óumflýjanlegur veruleiki. Staðreyndin er hins vegar sú, eins og við þekkjum, að það er aldeilis ekki búið að ákveða að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi.

Það eru fá mál sem fram hafa komið á Alþingi á síðustu árum sem hafa valdið eins miklum deilum og þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar. Ég spyr: Væri nú ekki ráð að láta þetta frumvarp bíða? Að við göngum til alþingiskosninga næsta vor og látum þann stjórnarmeirihluta sem þá verður á Alþingi stýra framvindunni í stað þess að á síðustu metrunum sé reynt að koma þessu máli í gegn. Framsóknarflokkurinn hefur hlaupið frá fyrirheitum sínum. Hann sagðist mundu standa vörð um Ríkisútvarpið en er núna ámátlega að reyna að verja kúvendingu sína og segir að það sé óhætt að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi vegna þess að það sé ekki meiri hluti fyrir því á Alþingi núna að selja þá merku stofnun. Þetta finnst mér ekki vera haldmikil rök og ekki rismikil afstaða.

Ég á aðeins stuttan tíma eftir af máli mínu hér og langar til að beina því til hæstv. menntamálaráðherra hvort hún vilji beita sér fyrir því að frumvarp þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, verði tekið til umræðu á þinginu áður en 1. umr. um stjórnarfrumvarpið lýkur, þannig að þau mál geti verið rædd samtímis og það sem meira er, fari samhliða til umfjöllunar í menntamálanefnd þingsins og þá þeim nefndum öðrum sem hugsanlega koma til með að fjalla um þessi frumvörp. Þetta skiptir miklu máli. Það skiptir miklu máli að umsagnaraðilar um þetta frumvarp fái valkosti til umfjöllunar. Valkosti sem teflt hefur verið fram í þessari stöðu. Þá vísa ég til frumvarps þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Ég hef einnig vakið athygli á öðrum þingmálum sem fram hafa komið og snerta þetta efni og eiga það öll sammerkt að vilja leita eftir víðtækri sátt um framtíð Ríkisútvarpsins.