133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:12]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Það var margt í ræðu hv. þingmanns sem hljómaði kunnuglega enda höfum við rætt þetta málefni ítrekað eins og fram hefur komið.

Það var eitt atriði sem varð til þess að ég ákvað að koma hingað upp í andsvar. Það var þegar hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á að sporin hræða og tilgreindi þá sölu Símans. Ég vil segja það hér og nú að það var alveg ljóst að þegar Síminn var hlutafélagavæddur var ekki tekið fram í þeim lögum að ekki skyldi selja Símann. Þetta er náttúrlega munurinn á Símanum og því frumvarpi sem við erum að ræða að í 1. gr. frumvarps til laga um Ríkisútvarpið kemur fram að salan sé ekki heimil. Það finnst mér vera mjög veigamikið atriði. Það er því ekki rétt að blanda þessum tveimur hlutum saman. Ég vildi aðeins koma inn á þetta atriði í andsvari mínu.