133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:59]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var eins með þessa ræðu og aðrar sem fluttar hafa verið hér í dag að hún hljómaði nokkuð kunnuglega, enda höfum við rætt málið þó nokkuð oft. Það var eitt atriði sem ég hnaut um og mér þótti einkennilegt en það var þegar hv. þm. Einar Már Sigurðarson sagði að þessi setning í 1. gr. frumvarpsins hefði ekki neitt gildi, hún væri merkingarlaus sem slík. Þetta skrifaði ég orðrétt eftir hv. þingmanni og hann leiðréttir mig þá ef hann hefur verið að hugsa um eitthvað annað.

Mér þykir þetta mjög einkennilegt vegna þess að að fyrstu greinar í lögum eru þýðingarmiklar, eins og reyndar allar greinar í lögum, en mér finnst mjög ódýrt að afgreiða 1. gr. frumvarpsins á þennan hátt. Við vitum að við núverandi aðstæður eins og lögin eru í dag er mjög auðvelt að setja verðmiða á Ríkisútvarpið og selja það með manni og mús með einfaldri heimild í fjárlögum, það er ekkert flóknara en það. (Gripið fram í.) Ef meiri hluti væri fyrir því á Alþingi væri löngu búið að selja Ríkisútvarpið. Mér finnst því ódýrt að afgreiða þetta svona vegna þess að við erum að setja inn þessa skýru grein að það standi ekki til og sé ekki heimilt að selja Ríkisútvarpið. Hér er náttúrlega í gangi ákveðinn hræðsluáróður. Það er verið að reyna að stimpla inn óvissu og óöryggi hjá fólki og ef það er gert nógu oft og fjölmiðlar fara að lepja það upp þá vonast auðvitað hv. stjórnarandstaða til að fólk fari að trúa þessu.

Ég fullyrði að það stendur ekki til að selja Ríkisútvarpið og ég mun ekki gefast upp á að ítreka það hér í ræðustól.