133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:01]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég var auðvitað ekki að gera lítið úr 1. gr. sem slíkri heldur að vekja athygli á setningunni sem eignuð er Framsóknarflokknum og hv. þingmaður er stöðugt að vekja sérstaka athygli á. Svo það fari ekkert á milli mála, hv. þingmaður, á ég við setninguna „Sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess er óheimil.“ En fyrsta setningin segir það sem segja þarf: „Ríkisútvarpið ohf. er sjálfstætt hlutafélag í eigu íslenska ríkisins.“ Þessum lögum þarf því að breyta ef einhver breyting verður á því eignarhaldi íslenska ríkisins. Setningin sem kemur á eftir skaðar að sjálfsögðu ekki neitt en hún bætir engu við eins og ég hélt að hv. þingmaður hefði heyrt ýmsa merka lögspekinga segja á fundi menntamálanefndar í fyrra.

Ég ætla hins vegar ekki að dvelja meira við þetta vegna þess að ég er hvorki að gera meira né minna úr þessari setningu en efni standa til, hún skiptir engu máli en það er mér algjörlega að meinalausu að hún sé þarna inni.

Það vakti hins vegar athygli mína áðan og ég gleymdi því eða kom því ekki að í ræðu minni að hv. þingmaður sagðist treysta þingmönnum framtíðarinnar til að sjá til þess að Ríkisútvarpið yrði ekki selt. Nú vill svo til, frú forseti, að hv. þingmaður hefur nýlega gefið yfirlýsingu um að hún hafi ekki hugsað sér að vera einn af þingmönnum framtíðarinnar. Hv. þingmaður mun því ekki ætla sér að vera hluti af þeim þingmönnum sem hún treystir til að gera þetta. Það skyldi þó ekki vera að það væri hluti af ákvörðun hv. þingmanns að hún telji að það séu meiri líkur en minni á því að gæti hún þurft að standa við þessi orð og treysti sér hreinlega ekki til þess?