133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:23]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Í dag er 16. október. Það þýðir að 15 dagar eru liðnir af þessum mánuði og þetta er sá 16. en þing hófst 2. október og nú mun standa yfir 9. þingdagur, mér telst það til. Svo háttar til að forseti hefur ákveðið að hafa kvöldfund 16. október. Ég hygg að það séu fá dæmi þess í þingsögunni að haldnir séu kvöldfundir svo snemma þings.

Vegna þess að forseti hefur ekki skýrt þessa ákvörðun sína, hefur ekki gefist tækifæri til að skýra þessa ákvörðun sína úr ræðustóli og raunar ekki tilkynnt hana með neinum hætti vil ég gefa forseta tækifæri til þess og spyr hverju valdi að haldinn sé kvöldfundur svo snemma þings. Ég spyr enn fremur hversu lengi hann eigi að standa eða hvort þetta sé kannski næturfundur sem við erum hér á og hvort eigi kannski að endurtaka afrekin frá síðasta þingi sem mæltist svo vel fyrir, forseti, og urðu til að auðvelda þingstörfin þá þegar forsetar héldu hér fundi langt fram á nótt. Einn fundurinn stóð til rúmlega sex um morgun og þótti nú ekki hafa hjálpað til við að koma mönnum til sæmilegra verka á þinginu.

Mér finnst þetta afar einkennilegt vegna þess að auðvitað hlýtur forseti að vera að reyna að flýta störfum þingsins með því að hafa þennan kvöldfund. Kvöldfundirnir eru eðlilegir þegar mikið liggur á og þegar þingi er að ljúka eða þarf að afgreiða fjárlög eða eitthvað af því tagi og allir taka saman nokkurn veginn og leggjast á árarnar að reyna að ljúka málum. En kvöldfundir utan þeirra tíma hafa ekki reynst heppilegir til þess að flýta þingstörfum. Á kvöldin eru menn oft langorðari en þeir eru á venjulegum vinnutíma og þegar forseti setur á kvöldfundi í málum sem ekki virðast vera kvöldfundar virði tekur hann þá áhættu að það sé misskilið sem einhvers konar áhersla af hans hálfu á að umræðu sé flýtt eða hún sé a.m.k. tekin úr kastljósinu og það er eiginlega ekki það sem við erum að gera á þinginu. Við erum að reyna að ræða málin í heyranda hljóði þannig að almenningur allur viti af og þar sem hver maður hafi rétt til þess að koma skoðunum sínum sæmilega á framfæri.