133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:29]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ekki annað hægt en að taka undir þær sjálfsögðu athugasemdir sem hér hafa komið fram hjá hv. þingmönnum um að það er mjög undarleg tilhögun af hálfu virðulegs forseta að setja hér á kvöld- eða næturfund til að reyna að keyra 1. umr. um þessa þriðju tilraun ríkisstjórnarinnar til að koma nýjum lögum á um Ríkisútvarpið fram í skjóli myrkurs. Það er mjög undarlegt að beita með þessum hætti hálfgerðum brögðum til að tóna niður umræðuna, til að reka þessa umræðu hér að kvöldlagi þannig að það verði minna úr henni, til að reyna að taka úr henni dampinn með einhverjum hætti þegar Alþingi er rétt komið saman. Afar fá stjórnarfrumvörp eru komin fram, ef þá nokkur fyrir utan fjárlögin, og því eru engin rök fyrir því af hverju þetta mál er rekið inn í kvöldfund núna 16. október. Það vita allir að þegar líður að þinglokum, annaðhvort skömmu fyrir jól eða í maí þegar þingi lýkur að vori, að þá eru rök fyrir því að mál séu rædd að kvöldlagi og stundum inn í nóttina til að flýta fyrir störfum Alþingis. Svo háttar ekki nú og því fer víðs fjarri. Þess vegna er þetta mjög undarleg ráðstöfun af forseta þingsins, sem var kosinn hér á dögunum nokkuð glæsilegri og almennri kosningu af, held ég, þorra alþingismanna þannig að ég held að flestir alþingismenn líti nú svo á að forsetinn starfi í þeirra umboði og hljóti að gæta hagsmuna þeirra allra burt séð frá flokkadráttum og pólitískum bolabrögðum ríkisstjórnarflokkanna hverju sinni. Þess vegna hlýtur virðulegur forseti að gefa okkur alþingismönnunum boðlega skýringu á því af hverju verið sé að reka þetta mál hér inn í myrkrið, af hverju verið sé að reyna að tæma 1. umr. um málið hér inn í nóttina þegar engin rök hafa komið fram um að svo þurfi að gera. Af hverju er málið ekki rekið með eðlilegum hætti en ekki þeim óttaslegna vandræðagangi sem einkennir málið af hálfu ríkisstjórnarmeirihlutans þegar hæstv. menntamálaráðherra virðist vera að gera þá kröfu á virðulegan forseta að málið sé rekið hérna einhvern veginn inn í nóttina þannig að minna verði úr umræðu og það flýti einhvern veginn fyrir málsmeðferð? Þetta eru bolabrögð, virðulegur forseti. Ég fer fram á það að fundi verði frestað og honum haldið áfram á morgun.