133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:43]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég þakka þann lipurleik að hleypa mér að undir þessum dagskrárlið. Það er út af fyrir sig ekki miklu við það að bæta. Það er greinilegt að hæstv. forseti telur sig standa sig býsna vel í því að reyna að ná sátt um þingstörfin. En það er rétt að vekja athygli á því að það kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, þingflokksformanni okkar samfylkingarmanna, að þessi kvöldfundur væri ekki með samþykki hans sem þingflokksformanns okkar þannig að eitthvað hefur mistekist í því að ná fullri sátt um það. Síðan er líka hægt að ræða það að kvöldfundur og kvöldfundur getur verið býsna misjafn. Kvöldfundi gæti verið lokið núna þegar klukkan er að verða ellefu eða það væri svona kvöldfundur í styttra lagi.

Frú forseti. Þetta er umhugsunarefni, ekki síst í ljósi þess að virðulegur forseti hélt merka ræðu hið fyrsta sinn er virðulegur forseti náði kjöri þegar hún talaði um að breyta hér vinnubrögðum. Ýmsir skildu það að minnsta kosti svo, þó að ég muni ekki nákvæmlega orðalag ræðunnar, að það yrði til þess að tekið yrði meira tillit til þess að þingmenn væru fjölskyldufólk og það yrði dregið frekar úr kvöldfundum en hitt. Því er spurning hvað hafi valdið þeim áherslubreytingum virðulegs forseta að setja hér á kvöldfund nú svo snemma þings þegar engin rök hafa komið fram um að mikil nauðsyn sé á slíku. Að vísu er eðlilegt að taka tillit til hæstv. ráðherra innan ákveðinna marka. En ég get ekki séð að það dugi til þess að rökstyðja kvöldfund sem þennan. Síðan gefur virðulegur forseti þingheimi ekki svör við því hvernig framhaldið er hugsað. Breytist þessi kvöldfundur hugsanlega í næturfund eða má búast við því að á morgun verði kvöldfundur sem hugsanlega gæti líka breyst í næturfund eða mun þetta ráðast af einhverju sem ekki er ljóst nú? Virðulegur forseti. Ég er sannfærður um að það muni frekar greiða fyrir þingstörfum heldur en hitt ef virðulegur forseti svaraði skýrt og greinilega því hvernig þetta væri hugsað.

Það er ekki gott að hefja þingið með þeim hætti að ekki skuli vera samkomulag um það til dæmis hvernig umræðu er háttað um mál eins og Ríkisútvarpsmálið sem við erum nú að ræða því það er þess eðlis að eðlilegt væri að ekki bara hæstv. ráðherra heldur líka virðulegur forseti legðu sig sérstaklega fram um að reynt yrði að ná sem allra mestri sátt um leið því stofnunin er þess eðlis að hún þarf á því að halda. Þetta er þess vegna ekki rétta leiðin til þess. Ég vænti þess að virðulegur forseti gefi okkur að minnsta kosti skýr svör við því hvernig ætlunin sé að halda þessu áfram.