133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:33]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann kom víða við en það sem ég hnaut um voru kannski ekki síst ummæli hans um minn ágæta flokk, Framsóknarflokkinn, og þykir mér eðlilegt að koma upp og svara fyrir það. Reyndar held ég að ég hafi farið í andsvör við flesta hv. þingmenn sem hér hafa tekið til máls og mun því endurtaka svör mín eina ferðina enn og gefst ekkert upp í því.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á málefni Símans. Þó að ég hafi ekki setið á þingi þegar allt það ferli fór í gegn — ég veit að hv. þingmaður þekkir það mjög vel — þá var það þannig að ekki var kveðið á um það í lögum að Síminn skyldi ekki verða seldur, eins og gert er í 1. gr. þessa frumvarps til laga um Ríkisútvarpið. Mér finnst það vera mjög veigamikið atriði og því er ekki rétt að blanda þessum tveimur málum saman.

Ég veit að þegar þessi umræða var á byrjunarstigi í mínum flokki og á flokksþingi okkar árið 2001 var t.d. ályktað um Símann, með leyfi forseta:

„Að ekki komi til sölu Símans fyrr en tryggt hefur verið að þessi markmið nái fram“ — þ.e. markmið um að fjármagni verði varið til að byggja upp dreifikerfi um landið.

Það er nákvæmlega það sem menn stóðu var vörð um að gera. Það er því ekki rétt að segja um Framsóknarflokknum í þessu máli að sporin hræði, við stöndum við orð okkar. Ég vildi koma þessu á framfæri vegna þess að hv. þingmaður var að líkja þessu ferli við sölu Símans.