133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:44]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir þau mótmæli sem hv. þm. Ögmundur Jónasson bar hér fram fyrir hönd sameinaðrar stjórnarandstöðu í þessu máli. Við höfðum ekki fyrir okkar leyti fallist á að hér væri yfir höfuð kvöldfundur. Ég tel að það sé algjörlega fráleitt að hefja þingveturinn með þessu offorsi.

Ég virði hins vegar viðleitni hæstv. forseta til þess að reyna að ná friði og spekt í þessum sölum og það gleður mig þegar hæstv. forseti segir að það hafi verið ætlunin að halda fundi fram eftir kvöldi. En þó að ég dáist að glæstu málfari hæstv. forseta og beri engar brigður á að hann hafi kannski mörgum öðrum fremur gott skyn á hvað felst í íslensku orðtaki þá verð ég að leyfa mér í fullri vinsemd að leita eftir því að hæstv. forseti skýri út hvað felist í því sem kalla má hugtakið „fram eftir kvöldi“. Nú er að koma miðnætti.

Við höfum mörgum sinnum í kvöld leitað eftir því að fá upplýsingar frá hæstv. forseta meðan aðalforseti sat hér í stólnum um það hversu lengi ætti að halda fram þessum fundi. Við fengum engin skýr svör við því. Nú má hins vegar segja að þessi viðleitni okkar hafi þokað málinu nokkuð fram. Hæstv. forseti hefur lýst yfir vilja sínum til þess að halda fundi fram eftir kvöldi. En hann hefur ekki talað nógu skýrt eins og þó er jafnan einn af hans mörgu kostum. Hvað felst í því sem hæstv. forseti segir? Hvenær lýkur kvöldi hans?

Nú verð ég að segja það af nokkuð sárri reynslu að sá skilningur sem sá hæstv. forseti sem nú situr í stólnum hefur stundum lagt í kvöld er í fullkominni andstöðu við þann skilning sem ég öðlaðist í uppeldi mínu á því hugtaki. Nú hallar langt í nótt, herra forseti, og ég vildi mjög gjarnan fá gleggri upplýsingar um það hversu lengi þetta kvöld, sem hæstv. forseti nefndi í sinni ágætu tölu áðan, stendur. Er það til klukkan tólf, er það til klukkan eitt eða tvö? Ekkert af því sem fram fór á fundum þingflokksformanna og forseta þingsins í dag, í kvöld og reyndar áður, fól það í sér að þess væri að vænta að menn mundu ræða þetta óþurftarmál inn í nóttina. Ég, a.m.k. fyrir mitt leyti og Samfylkingarinnar, segi það alveg skýrt að það var gegn mótmælum mínum sem þingflokksformanns Samfylkingarinnar og ég vil líka segja það alveg skýrt að það kemur ekki til mála af okkar hálfu að hér verði annar kvöldfundur annað kvöld bara til þess að hlaupa eftir dyntum ráðherra sem þurfa af (Forseti hringir.) einhverri hégómagirni að koma málum fram.