133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

rannsóknir á meintum hlerunum – áhrif Kárahnjúkavirkjunar á efnahagslífið.

[13:40]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta mál er komið í mjög undarlegt ferli. Hér liggur fyrir að fyrrverandi utanríkisráðherra brigslar embættismönnum innan lögreglu og embættismanni hjá Pósti og síma um að standa fyrir hlerunum á símum stjórnmálamanna. Auðvitað eiga þessir embættismenn allan rétt á því að fá öll gögn á borðið og að það upplýsist hvort eitthvað sé á bak við þessar þungu ásakanir fyrrverandi utanríkisráðherra.

Eins og umræður hafa fallið hér er ekki við því að búast að þessir embættismenn beri mikið traust eða mikinn trúnað til þeirra stjórnmálamanna sem hafa talað um þessi mál með þeim hætti sem þau gerðu hér, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Tala um að framkvæmdarvaldið þumbist við og tala niður til ríkissaksóknara. Ég sé að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon brosir. En það er ekki broslegt, hv. þingmaður, þegar fyrrverandi ráðherrar eru að brigsla embættismönnum um refsiverðan verknað, það er ekki broslegt. Það er skylda löggjafarvaldsins, skylda ríkissaksóknara að fara ofan í þessi mál og upplýsa hvernig þau eru vaxin.