133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

rannsóknir á meintum hlerunum – áhrif Kárahnjúkavirkjunar á efnahagslífið.

[13:44]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að hér er ekki broslegt mál á ferðinni. Við erum að ræða það hvort fyrrverandi utanríkisráðherra hafi verið hleraður í starfi og þá af hverjum og hvers vegna. Það er tímafrekt starf að hlera ef það á að skila einhverju. Það þarf tæknimenn, hlerunarbúnað og mannskap til að hlusta daginn út og væntanlega daginn inn líka. Eru menn líka hleraðir á kvöldin og væntanlega þarf þá einnig mannskap til að fylgja mönnum eftir þegar þeir eru ekki að tala í síma.

Ef hlerun átti sér stað velti maður fyrir sér hverjir hafi séð um það verkefni. Var þetta sérstök deild innan lögreglunnar? Ef svo er, hversu fjölmenn var slík deild? Hversu margir höfðu atvinnu af slíkri starfsemi og undir hvern heyrði þessi deild? Og er hún kannski enn þá starfandi? Að sjálfsögðu á að setja á fót sérstaka rannsóknarnefnd. Þetta er væntanlega einungis toppurinn á ísjakanum og við eigum að fara að eins og Norðmenn gerðu við mjög svo svipaðar aðstæður. Það er mál manna að annaðhvort sé Sjálfstæðisflokkurinn að fela eitthvað eða þessir menn að spinna þetta upp. Hvort tveggja, frú forseti, er jafnalvarlegt.