133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

rannsóknir á meintum hlerunum.

[13:56]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Samkvæmt þingskapalögum á þessi dagskrárliður að taka 20 mínútur. Þær 20 mínútur eru orðnar nokkuð bólgnar og það hefur iðulega gerst að undanförnu að þær hafa bólgnað nokkuð út. Ég var í ljósi þessa óánægður með að fá ekki að koma hér upp og gera athugasemdir, m.a. við þau ummæli sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hafði um fund nefndarinnar frá í morgun þar sem hann vísaði í orð gesta nefndarinnar. Frásögn hans var einhliða og hún var villandi og ég vil mótmæla henni.

Varðandi það sem hér hefur verið rætt vil ég vekja athygli á því að sl. vor var ákveðið að setja niður nefnd sem hefur það hlutverk að opna fræðimönnum aðgang að gögnum sem lúta að njósnum og hlerunum á kaldastríðstímanum. Það var gagnrýnt á þeim tíma að hlutverk nefndarinnar væri of þröngt skilgreint varðandi viðfangsefnið, tímann og aðra þætti.

Nú hefur komið fram tillaga, hana setti hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fram fyrir stundu, að formenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi og þingflokksformenn setjist saman og reyni að ná breiðri samstöðu um aðkomu að þessu máli. Það er og hlýtur að vera skýr krafa Alþingis og þjóðarinnar allrar að öll spil verði lögð á borðið og hætt verði öllum blekkingum og feluleik gagnvart þjóðinni.