133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

framtíð hvalveiða við Ísland.

[13:59]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða um framtíð hvalveiða við Ísland. Við formaður Frjálslynda flokksins, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson upplifðum í morgun afskaplega ánægjulega stund þegar við brugðum okkur niður á höfn í þessu fallega veðri sem nú er í dag. Þar gat að líta Hval 9. Það var verið að gera skipið klárt til að fara á sjó. Skipið leysti festar og hélt úr höfn við lófatak og ferfalt húrrahróp mannfjölda sem stóð á bryggjunni. Þetta var söguleg stund. Ég held að allir á bryggjunni og að sjálfsögðu hin ágæta áhöfn á Hval 9 sem lagði úr höfn hafi gert sér grein fyrir því hvað hér var að gerast.

En ég hefði gjarnan viljað fá staðfestingu á því frá hæstv. sjávarútvegsráðherra sjálfum hvað sé að gerast í hvalveiðimálum okkar Íslendinga og hvernig standi á því að hvalveiðiskipum hefur fækkað um eitt í Reykjavíkurhöfn núna í morgun.