133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

framtíð hvalveiða við Ísland.

[14:09]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrir rúmum sjö árum eða 10. mars 1999 samþykkti Alþingi ályktun um hvalveiðar með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða, 37 atkvæðum gegn aðeins sjö mótatkvæðum. Upphaf ályktunarinnar er þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að hefja skuli hið fyrsta hvalveiðar hér við land og tekur fram að ályktun þess frá 2. febrúar 1983 stendur ekki í vegi fyrir því. Veiðarnar fari fram á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar og undir eftirliti stjórnvalda.“

Það liggur því fyrir að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur mjög skýrt pólitískt umboð frá Alþingi til að taka þá ákvörðun sem Alþingi fól honum að taka fyrir rúmum sjö árum við það tækifæri sem hann teldi hentugt. Veiðarnar fara fram á þeim grundvelli sem Alþingi setti, vísindalegri ráðgjöf og undir eftirliti stjórnvalda þannig að þau skilyrði eru öll uppfyllt.

Nú hefur hæstv. ráðherra ákveðið að stíga það skref að hefja atvinnuveiðar á hval bæði á stórhveli og smáhveli þannig að þetta eru tímamót í þessu máli sem reyndar, eins og ég undirstrika, Alþingi samþykkti fyrir rúmum sjö árum.

Í öðru lagi eru þessi tímamót grundvölluð á því að um sjálfbærar veiðar er að ræða, einungis sé leyft að veiða níu langreyðar af þeim 200 sem vísindamenn telja árlega unnt að taka úr stofninum eða aðeins um 4% af mögulegri veiði án þess að ganga á stofninn. Varðandi hrefnur er leyft að veiða um 17% af árlegum kvóta sem vísindamenn telja óhætt að mæla með þannig að veiðarnar falla að öllu leyti undir þau skilyrði sem Alþingi setti á sínum tíma.