133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

framtíð hvalveiða við Ísland.

[14:12]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Því ber að fagna að við séum að hefja atvinnuveiðar á sjávarspendýrum og kannski var ekki seinna vænna, hæstv. forseti, en að við brygðumst við eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur nú gert.

Réttarstaða Hvals hf. er slík að ef honum hefði verið meinað að veiða eftir að vera búinn að gera sín skip klár til veiða og aðstöðu klára til að vinna og verka afurðir þá hefði ríkisstjórnin, að mínu viti, orðið skaðabótaskyld gagnvart fyrirtækinu. Menn eiga rétt á að nýta þá stofna sem taldir eru þola veiðar og ekki fer á milli mála að langreyðarstofninn þolir veiðar og hrefnustofninn þolir veiðar. Reyndar hefur komið í ljós á undanförnum árum að hrefnan er tækifærissinni í íslensku lífríki sjávar og tekur til sín miklu meira af botnfiskum í sínu fæðunámi en gert var ráð fyrir áður en vísindaveiðarnar hófust. Öll rök hníga því að því að hefja atvinnuveiðar bæði á stórhvelum og hrefnunni. Ég fagna því að það skref skuli stigið í dag. Reyndar finnst mér kvótinn, níu langreyðar, afar naumt skammtaður miðað við þau 200 dýr sem hægt væri að veiða undir sjálfbærri nýtingu ef litið er til þeirra tillagna sem við höfum fengið á undanförnum árum. En það er kannski orðin vani að skammta litla kvóta. Sjávarútvegsráðherra er kannski orðinn vanur því og situr í því fari, því miður.