133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

framtíð hvalveiða við Ísland.

[14:16]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Sjálfbær þróun er stefna Samfylkingarinnar. Það þýðir að ef hvalastofn er nægilega stór til þess að þola veiðar að mati vísindamanna má veiða úr honum. Sú er raunin við Ísland eins og fram hefur komið í máli manna. Þessar niðurstöður Hafró eru samþykktar bæði af NAMMCO og vísindaráði Alþjóðahvalveiðiráðsins og hafa birst í ráðgjöf Hafró mörg undanfarin ár.

Það er staðreynd að ferðaþjónusta er orðin önnur mikilvægasta atvinnugrein Íslendinga og hvalaskoðun hefur notið mikilla vinsælda meðal ferðamanna. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að taka tillit til ferðaþjónustunnar ef við ætlum ekki að eyðileggja eða stórskaða þann árangur sem náðst hefur í markaðsstarfi hvalaskoðunarfyrirtækja.

Veiðar og ferðamennska fara saman á Grænlandi og þar er hvalurinn hluti af hefðbundnu fæðuvali Grænlendinga sjálfra. Við erum í annarri stöðu og hvalveiðar eru ekki mikilvægar fyrir afkomu íslensku þjóðarinnar. Við höfum einnig hagsmuna að gæta á hefðbundnum fiskmörkuðum okkar þar sem hvalverndarsinnar hafa beitt áhrifum sínum. Staðreynd málsins er því sú að við verðum að fara afar varlega í þessum efnum ef við ætlum ekki að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.

Frú forseti. Tímasetning þessarar ákvörðunar núna er athyglisverð á árstíma þar sem hvalveiðar fara ekki fram. Það skyldi þó ekki vera reyndin að það sé verið að reyna að beina athygli landsmanna frá þeim málum sem virkilega skipta máli á landinu eins og t.d. hlerunum, stóraukinni misskiptingu skattbyrði á Íslendingum eða heilbrigðis- og velferðarkerfi í rúst og ýmsu fleiru sem núverandi ríkisstjórn vill helst ekki að sé verið að tala um? Við skulum því ekki rífast um hvalveiðar, sem eru allt í lagi í hófsemd og ef tillit er tekið til ferðaþjónustunnar. Við skulum muna eftir því sem skiptir máli.