133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

framtíð hvalveiða við Ísland.

[14:26]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt sem hv. þingmaður Magnús Þór Hafsteinsson sagði hér í lokaorðum sínum, að þó að skrefið sé í sjálfu sér stutt þá er þetta heilmikið mál sem við erum að ræða hér um.

Ég verð svo að segja það strax að hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir ofmetur snilli mína mjög mikið. Ég held að ég hafi talað um þessi hvalamál í 15 ár eða frá því að ég kom á þing og ég ætla að fullvissa hana og aðra um að ekki vakti það fyrir mér að þann 17. október 2006 mundi sú umræða síðan leiða til þess að ég væri að þyrla svona ryki yfir alla umræðuna um aðra hluti í pólitískri umræðu í landinu. Svona snjall er ég ekki en ég vil hins vegar þakka kærlega fyrir það álit sem fram kom í þessum orðum.

Kjarni þessa máls kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar áðan og hann er sá að Alþingi hefur markað stefnu í þessum efnum. Alþingi markaði þá stefnu að við skyldum hefja hvalveiðar með tilteknum skilyrðum sem við höfum núna uppfyllt. Það var þannig að við gengum inn í Alþjóðahvalveiðiráðið á sínum tíma með tilteknum skilyrðum. Þessir fyrirvarar eru núna í fullu gildi. Hinar þjóðréttarlegu heimildir okkar til að hefja þessar veiðar eru algjörlega til staðar.

Því var velt upp áðan hvort við værum á einhvern hátt að ganga á svig við þessar þjóðréttarlegu heimildir. Svo er ekki. Við styðjumst við alþjóðahafréttarsáttmálann. Þar er m.a. kveðið á um tiltekið samráð sem þurfi að eiga sér stað og það uppfyllum við með starfi okkar innan Alþjóðahvalveiðiráðsins og innan NAMMCO. Allar heimildir okkar til þess að hefja þessar veiðar eru því til staðar og við værum út af fyrir sig að hverfa frá stefnumörkun Alþingis, sem væri mjög alvarlegt, ef við hefðum ekki reynt að vinna áfram á þessari braut, að stefna að því að hefja aftur atvinnuveiðar á hval. Þess vegna er þessi dagur fyrst og fremst ákveðin lok á því ferli sem Alþingi samþykkti og mótaði stefnuna gagnvart og ég hefði sem ráðherra verið að ganga á svig við vilja Alþingis ef ég hefði unnið með öðrum hætti en þeim að reyna að vinna að því að hefja hér atvinnuhvalveiðar. Þess vegna er þetta sjálfsagður hlutur sem ég heyri að Alþingi fagnar og tekur þar með undir almenna þjóðarviljann í þessum efnum.