133. löggjafarþing — 13. fundur,  17. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:29]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Nú höldum við áfram umræðu um Ríkisútvarpið ohf., umræðu sem lauk á miðnætti í gærkvöldi. Ég vil, hæstv. forseti, byrja á því að rifja upp þær athugasemdir sem komu fram áður en við fórum í umræðuna, þ.e. athugasemdir um uppröðun á dagskrá Alþingis í gær, sem heldur sér í dag. Það eru þrír liðir á dagskrá þessa þingfundar og í þeirri sömu röð og var í gær. Fyrst er Ríkisútvarpið, síðan Sinfóníuhljómsveit Íslands og síðast útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög. Það er þriðji dagskrárliðurinn.

Við óskuðum eftir því, hæstv. forseti, í gær að þessum dagskrárliðum yrði snúið við með þeim rökum að eðlilegra væri og betra að fara í umræðuna þannig að við hefðum þennan ramma, þennan grunn sem við ætluðum að setja allt inn í, sem sé Ríkisútvarpið og hina frjálsu fjölmiðla hvort sem það heita ljósvaka- eða prentmiðlar. Ég tel að rök sem stjórnarandstaðan færði fram séu fullgild, hvort sem er við þetta frumvarp eða önnur hliðstæð. Það sé eðlilegra og betra að hafa heildarmyndina skýra og setja svo inn í þann ramma. Ég tel að umræðan um Ríkisútvarpið væri með öðrum hætti ef við hefðum gert þetta, hæstv. forseti. Við þessu var ekki orðið og við munum halda áfram að ræða um Sinfóníuhljómsveitina og svo útvarpslögin í beinu framhaldi af þessari umræðu.

Hæstv. menntamálaráðherra og forseti hafa orðið við óskum stjórnarandstöðunnar frá því síðasta vor að taka þessi frumvörp þrjú saman í einni spyrðu, ekki þannig að þau þyrfti endilega að ræða sem einn dagskrárlið eða undir einum hatti en að þau færu öll samhliða í gegnum umræðu á þinginu. Það er heppilegra að öllu leyti. En ég sakna þess að hér skuli ekki hafa verið fjórða málið sem er af sama toga. Það er mál á þskj. 24, sem sé með lægra skráningarnúmer, frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, með síðari breytingum. Það frumvarp hefur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagt fram og er um að ræða breytingar á núverandi útvarpslögum. Þar er lagt til að breyta útvarpsráði og styrkja stjórnina og einnig útskýrt með hvaða hætti hægt er að styrkja stofnunina. En að þessu kem ég síðar, hæstv. forseti.

Hvað er verið að gera? Með því frumvarpi sem hér liggur frammi er verið að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Það er verið að breyta Ríkisútvarpinu í opinbert sjálfstætt hlutafélag í eigu íslenska ríkisins og samkvæmt frumvarpinu er sala þessa opinbera hlutafélags óheimil.

Það er alveg ljóst að það sem skiptir máli í þessari þriðju tilraun hæstv. menntamálaráðherra til að breyta rekstri Ríkisútvarpsins yfir í hlutafélag — það er hlutafélagaformið sem skiptir máli hvort sem það heitir ehf., ohf. eða hvað annað. Það sem skiptir máli er að koma Ríkisútvarpinu í hlutafélag og í því liggur breytingin. Í 1. gr. laganna segir um eignarhaldið:

„Ríkisútvarpið ohf. er sjálfstætt hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess er óheimil.“

Þetta er ein grein í frumvarpinu og þessari einu grein er hægt að breyta með einni setningu í nýju frumvarpi. Ég er sannfærð, hæstv. forseti, um að framtíðarsýnin með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag er sú að koma því enn frekar út á markað. Það að halda svona stíft við að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag er pólitísk hreintrúarstefna Sjálfstæðisflokksins. Það getur ekki verið neitt annað. Það er ljóst að á því er áhugi, sérstaklega hjá ungum sjálfstæðismönnum, að koma ríkisfyrirtækjum, og þá ekki síst Ríkisútvarpinu, úr ríkisrekstri og yfir í hlutafélagaform eða hreinlega selja þau. Þetta er ákveðin hreintrúarstefna því ef markmiðið væri eingöngu að standa vörð um Ríkisútvarpið, efla það og gera það hæfara til að aðlagast breytingum í þeirri miklu grósku og iðu sem er á ljósvakamiðlunum í dag og í íslenskri fjölmiðlaflóru, þarf enga lagabreytingu til.

Ríkisútvarpið kom á laggirnar nýrri rás, Rás 2. Það gerðist innan stofnunarinnar og þurfti enga lagabreytingu til. Aftur á móti hefði þurft meira fjármagn til að reka Rás 2 eins og metnaður og vilji stóð til hjá stofnuninni, að hafa stöðvar úti um allt land. Það er hægt að bregðast við, það er hægt að koma með nýja starfsemi, það er hægt að efla starfsemina úti um allt land án þess að breyta félaginu í hlutafélag. Það er sú dínamík í stofnuninni sjálfri sem á að styðja. Það er hægt án þess að breyta stofnuninni í hlutafélag.

Það er líka ljóst, hæstv. forseti, að ákvæðið um að ekki mætti selja Ríkisútvarpið varð að vera inni til að Framsóknarflokkurinn gæti stutt og skrifað upp á frumvarpið. Framsóknarflokkurinn hefur haft það á stefnuskrá sinni, og farið með það út í kosningar oftar en einu sinni, að hann muni standa vörð um að Ríkisútvarpið fari ekki á markað og verði ekki selt. Með því að gangast inn á þessa formbreytingu á rekstri útvarpsins tel ég að Framsóknarflokkurinn sé að láta teyma sig vísvitandi eða með blekkingum inn á óheillaspor. Ég veit ekki hvernig þingmenn þess ágæta flokks ætla að fara út í næstu kosningar og verja það að hafa stutt þetta frumvarp þar sem það blasir við að um tímabundið ástand getur verið að ræða. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir, sem sat með okkur í gærkvöldi og fylgdist með, var ótrauð í að koma upp í andsvör og mótmæla því að til stæði að selja Ríkisútvarpið eða selja út úr Ríkisútvarpinu. Ég vil trúa því að hv. þingmaður standi í þeirri meiningu að það loforð eða ákvæði í frumvarpinu muni halda um ókomna tíð. En það getur framtíðin ein skorið úr um.

Hvað er Ríkisútvarpið? Ég held að í hugum okkar flestra sé Ríkisútvarpið, eða gamla, góða Gufan, samofin þjóðarvitundinni, að svo sé a.m.k. hjá okkur sem erum komin um og yfir miðjan aldur. Stór hluti af minningum bernskunnar, alla vega hjá okkur sem ólumst upp áður en nýju stöðvarnar komu á markaðinn sem ungt fólk í dag kveikir kannski frekar á — í hugum okkar flestra er Ríkisútvarpið hluti af menningunni, hluti af því sem við erum enda geymir það í fórum sínum ómetanlegar þjóðargersemar. Þó að þær gersemar séu ekki í formi málverka eða annars konar listaverka, sem við geymum á listasöfnum, eru þær menningarverðmæti sem eru jafndýrmæt íslensku þjóðinni og þau sem eru geymd bæði í Þjóðminjasafninu og í Listasafni Íslands. Þetta eru menningarverðmæti sem eru geymd á spólum og á vínylplötum og öðrum slíkum tækjum sem hafa verið notuð til upptöku bæði í hljóðvarpi og síðar í sjónvarpi. Þetta eru hljóðupptökur, þetta eru raddir okkar fremstu skálda. Við höfum heyrt í Þórbergi, Halldóri Kiljan Laxness og fleirum.

Við höfum verið að hlusta undanfarið á ómetanlegar upptökur af tónlist, söngvurum og hljóðfæraleikurum og við eigum upptökur á leikritum og þáttum í sjónvarpi — afþreyingarefni þegar það var flutt á sínum tíma en er nú ómetanlegt menningarverðmæti. Þetta hefur Ríkisútvarpið eignast í gegnum tíðina og þetta verður eign hins nýja hlutafélags ef af verður. Það má aldrei verða að slíkar upptökur, rétt eins og Listasafn Íslands eða Þjóðminjasafnið, verði ekki áfram í eigu þjóðarinnar, skilyrðislaust. Við eigum að hafa lært af reynslunni að taka ekki upp nýja sölu bankanna eins og sú sala fór fram. Þá gleymdust öll listaverkin sem þar voru og fóru bara með si svona. Það á við um Ríkisútvarpið og aðrar stofnanir sem hafa haft menningu og metnað innan sinna vébanda og komið sér upp listaverkum, en það hefur verið hlutverk Ríkisútvarpsins að safna, geyma og stuðla að menningu í landinu.

Hæstv. forseti. Fyrir skömmu var send út fréttatilkynning frá menntamálaráðuneytinu um samning við Ríkisútvarpið um almannaþjónustu. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Menntamálaráðuneytið og Ríkisútvarpið hafa náð samkomulagi um drög að samningi um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Hlutverk samningsins er að skilgreina og lýsa nánar tilgangi og hlutverki RÚV og þær kröfur sem gerðar eru til Ríkisútvarpsins á grundvelli þess frumvarps sem lagt verður fram á fyrstu dögum þingsins.“

Gert er ráð fyrir að samningurinn taki gildi samhliða breyttu rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Helstu nýmæli í samningnum eru stóraukin áhersla á íslenskt efni og kemur fram að þá muni fjöldi textaðra klukkustunda aukast um 100% frá upphafi. Í samningnum skuldbindur Ríkisútvarpið sig til að gerast kaupandi eða meðframleiðandi að leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum, heimildarmyndum eða öðru sjónvarpsefni og verja til þess að lágmarki 150 millj. kr. á ári frá og með árinu 2008.

Hæstv. forseti. Þessi drög að samningi, eins og ég las upp og var fréttatilkynning frá menntamálaráðuneytinu, koma fram í II. kafla frumvarpsins, um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins eftir að búið er að gera það að hlutafélagi. Það verð ég að segja að ég get tekið undir hvern einasta lið í þessum drögum eða um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins ohf., nema að ég tel að Ríkisútvarpið hafi verið að sinna þessum skyldum og eigi að sinna þeim og til framtíðar. Með fjárlögum og breytingum á stjórn og með því að breyta innri málefnum stofnunarinnar á þann veg að Ríkisútvarpið geti sinnt þessum skyldum — það eina sem við þurfum í raun að gera er að sjá til þess að Ríkisútvarpið hafi fjármagn til að uppfylla þetta. Annað ekki.

Í frumvarpinu sem liggur frammi frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, og hefur verið dreift, leggjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til í 1. gr. að við 3. mgr. 3. gr. núverandi laga um Ríkisútvarpið bætist, með leyfi forseta: „Stefnt skal að því að hlutur innlends efnis sé sem mestur og vandað sé til þess sem verða má.“

Við leggjum einnig til að í staðinn fyrir útvarpsráð sem nú er starfandi komi sérstakt dagskrárráð sem verði ráðgefandi og það verði mjög öflugt ráð innan stofnunarinnar, bæði með utanaðkomandi aðilum og eins fulltrúum fagaðila innan stofnunarinnar til að sjá um þetta metnaðarfulla og mikla menningarstarf sem er samkvæmt hlutverki og skyldum Ríkisútvarpsins, eins og fram kemur í frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra.

Innan Ríkisútvarpsins hefur nefnilega verið alveg frá upphafi og til dagsins í dag mikill mannauður og það er það mikið mannafl sem stofnunin hefur í þjónustu sinni að við eigum eingöngu með auknu fjármagni að geta ráðið við mjög metnaðarfulla dagskrá og íslenska dagskrárgerð.

Hæstv. forseti. Í umræðunni í gær kom fram að fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins er mjög alvarleg. Stofnunin hefur tekið há lán og miklar skuldir hafa safnast upp. Stór hluti þeirra skulda er vegna flutnings í nýtt húsnæði sem stofnunin var alfarið látin bera. Þurfti hún að taka langtímalán þegar sjónvarpið var flutt frá Laugaveginum og í hús við Háaleitisbraut. Það var stofnuninni mjög dýrt og mjög óeðlilegt að gera ekki sérstakar ráðstafanir til að sjónvarpið gæti komið sér fyrir með nýjum búnaði og endurnýjað allan búnað sinn með því að leggja fram sérstakar fjárveitingar í því skyni. Þetta höfum við séð gerast á fleiri stöðum samanber sameiningu sjúkrahúsanna, Borgarspítalans og Landspítalans, á sínum tíma þegar ekki var tekið tillit til mikilla flutninga sem var þeirri sameiningu samfara. Eins var það með Ríkisútvarpið. Þegar það fékk nýtt húsnæði voru ekki gerðar sérstakar ráðstafanir á fjárlögum til að auðvelda stofnuninni að koma sér fyrir og efla tækjakost sinn og þá var sjónvarpsaðstaðan til útsendinga langdýrasti þátturinn. Því er það enn frekar umhugsunarefni miðað við rekstrarstöðu stofnunarinnar hvers vegna verið er að breyta stofnuninni í hlutafélag akkúrat núna. Ef af þessu frumvarpi verður, sem ég ætla að vona að verði ekki, hvernig á þá nýtt hlutafélag að komast á laggirnar, opinbert hlutafélag, og verða öflug menningarstofnun eins og henni er ætlað með eingöngu 5 millj. kr. tannfé? Ég held að það hljóti að vanta einhver núll inn í tillögurnar ef af þessu á að verða til að geta farið af stað með einhverjum myndarskap.

Ekki er hægt að greina það í fjárlögum að því eigi að fylgja eftir að styrkja rekstrarstöðu Ríkisútvarpsins. Það er milljarður eða meira sem þyrfti að koma inn miðað við stöðuna í dag til að gera Ríkisútvarpið starfhæft. Maður sér það fyrir sér að með breyttu rekstrarformi og uppsögnum á starfsfólki og því mikla valdi sem nýr útvarpsstjóri mun hafa, þá verði auðveldara að hreinsa til, bæði í mannskap og dagskrárgerð því öðruvísi mun þessi nýja stofnun eða gamla stofnunin í nýju rekstrarformi ekki geta starfað áfram. Ef á að negla alveg niður hlutverk og skyldur með óbreyttu framlagi á næsta ári í formi afnotagjalda, þá virðist það blasa við að hreinsanir verði hjá starfsmönnum og í dagskrárgerðinni.

Hæstv. forseti. Það hefur verið rekin sveltistefna hvað varðar rekstur opinberra stofnana. Það hefur verið gert meðvitað og markvisst á öllum ríkisstofnunum. Ég þekki ekki til nokkurrar stofnunar sem hefur komið til fjárlaganefndar eða maður heimsótt eða heyrt af sem telur sig una sátta við sitt og að komið sé til móts við óskir stofnunarinnar um rekstrarfé til að standa undir lögboðinni starfsemi. Það er hver einasta stofnun sem maður heimsækir eða fer ofan í saumana á sem á í erfiðleikum með að láta enda ná saman, erfiðleikum með að halda starfsmönnum, erfiðleikum með að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru um lögbundnar skyldur. Það hefur verið stöðugur niðurskurður og mikið aðhald hefur verið á undanförnum árum.

Það virðist vera ljósara með hverju árinu sem líður að þetta sé meðvituð stefna. Svo virðist sem verið sé að koma hverri opinberu stofnuninni á fætur annarri í þá stöðu og í þær þrengingar í rekstri að samstaða starfsmanna og þjóðarinnar um mikilvægi rekstursins bresti. Því að þegar ástandið er þannig að það er stöðugur niðurskurður með stöðugu álagi og stöðugu aðhaldi og allt snýst bara um að láta hlutina ganga þá gefast menn að lokum upp. Þetta sér maður hvað gleggst núna á heilbrigðisstofnunum sem eru meira og minna að kikna undan álagi. Þar sér maður það trúlega hvað best því álagið bitnar á sjúklingum, á langveikum og á öldruðum og það er miklu erfiðara að ganga að kvöldi eða að loknum vinnudegi burt frá þeim sem maður á að þjóna, lifandi veru, en frá stabbanum á skrifborðinu sem ekki lækkar heldur bara hækkar, eða verkefnum sem hlaðast upp og ekki er hægt að komast í gegnum að sinna. Þetta er sú tilfinning sem langflestir búa við. Þegar starfsmenn og þeir sem njóta þjónustunnar eru orðnir alveg vonlausir um að ástandið muni lagast, að þetta muni vera svona áfram, og þurfa að bíða í meira en klukkutíma eftir að komast að í síma hjá þjónustufulltrúa Tryggingastofnunar ríkisins, svo ég haldi áfram að nefna stofnanir, sökum þess að stofnunin er undirmönnuð, þegar þjónusta stofnunar er á þennan hátt þá segja starfsmenn: Þetta getur ekki orðið verra, það skiptir ekki máli hverjir reka þetta. Eða þeir sem þjónustuna þiggja: Það skiptir ekki máli hvort þetta er selt eða ekki. Þetta er hvort sem er ómögulegt eins og það er.

Þá trú og það traust sem fólk hefur haft á opinberum stofnunum í grunnþjónustu er markvisst verið að mylja niður.

Sporin hræða, hæstv. forseti, því þegar búið er að vera með stofnanir í kyrkingaról svo lengi er auðvelt að selja. En svo eru þetta tískubylgjur, eins og hvað annað, sem heita frjálsræði, samkeppni, markaðslögmál og að við séum í alþjóðlegri samkeppni. Þessi hugmyndafræði um markaðsvæðinguna veður yfir allt og alla og þá er eins og margir telji að við þurfum að fylgjast með og vera ekki svona gamaldags og auðvitað þurfum við ekki að eiga Símann. Það getur hver sem er rekið hann. Og það átti ekki að selja Símann. En Síminn var seldur og grunnnetið var selt með Símanum og þessa dagana erum við að heyra frá fyrirtækjum sem kvarta hástöfum undan þjónustu Símans og því misrétti sem önnur félög í fjarskiptaþjónustu telja sig verða fyrir, að einokun sé á þessu sviði, grunnnetið sé í eigu eins aðila. Eins kvarta neytendur undan hækkuðum afnotagjöldum og símgjöldum. Þróunin fór akkúrat í öfuga átt en haldið var fram að mundi verða. Það hefur allt hækkað í staðinn fyrir að lækka og þjónustan hefur rýrnað, hún hefur versnað, sérstaklega úti um land. Starfsöryggi starfsmanna er orðið fyrir bí. Góðum starfsmönnum, konum á miðjum aldri og þar yfir er sagt upp án annarra skýringa en að um hagræði sé að ræða.

Þegar slík stefna og hugmyndafræði er undirliggjandi verður Ríkisútvarpið ekki undanþegið. Ég er hrædd um að starfsmennirnir verði fyrstir til finna fyrir þessari hagræðingarstefnu sem verður þá að innleiða ef stofnunin á ekki að fá umtalsvert fjármagn. En það eru ekki eingöngu ráðningar og uppsagnir sem munu breytast ef Ríkisútvarpinu verður breytt í opinbert hlutafélag því það mun fara eftir hlutafélagalögum. Eins og útvarpsráð er kosið í dag eru það að hluta til fulltrúar frá Alþingi sem þar sitja en samkvæmt frumvarpinu á áfram að halda hinu pólitíska afli í stjórn. En það sem mun skipta öllu máli er það að vald útvarpsstjóra samkvæmt frumvarpinu er nær algert, bæði í mannaráðningum og dagskrárgerð. Hann mun sjá alfarið um og bera ábyrgð á starfsmannaráðningum og uppsögnum, hann mun ráða um kjör því að samningar opinberra starfsmanna verða fyrir bí. Það verður ráðið samkvæmt einstaklingssamningum þar sem hvílir launaleynd og launabilið milli starfsmanna mun þar af leiðandi aukast eins og á öllum þeim stofnunum þar sem þetta form gildir. Réttindi og skyldur starfsmanna verða skert.

Það verður örugglega, hæstv. forseti, farið yfir þá kafla sem snúa að þessum breytingum í meðferð þingsins og hv. menntamálanefndar þegar hún fær frumvarpið til umsagnar. Þetta er gerbylting og breyting á starfsöryggi, kjörum og ráðningarformi sem verður hjá starfsmönnum Ríkisútvarpsins.

Hæstv. forseti. Hvernig er samkeppnisstaða Ríkisútvarpsins gagnvart öðrum sjálfstætt starfandi ljósvakamiðlum í dag? Hún er sterk og hún á að vera það því að Ríkisútvarpið gegnir skyldum í menningar- og öryggisþáttum sem öðrum fjölmiðlum er ekki ætlað að gegna. Þar lít ég sérstaklega til öryggisþáttanna sem engin önnur stofnun á að gæta. Og þar sem við búum á eyju norður í Atlantshafi, eldfjallaeyju að auki, þar sem veður geta verið válynd og verða það, þar sem eldgos verða með reglubundnum hætti eða koma í skorpum, þar sem við megum búast við alls konar vá af náttúrunnar völdum og einnig ýmiss konar vá sem kalla þarf til almannavarnir og lögreglu, þá skiptir miklu máli að hafa öryggistæki eins og Ríkisútvarpið. Þetta er krafa, þetta er ábyrgð sem þessi stofnun ber og því eigum við ekki stöðugt að bera hana saman við hina frjálsu fjölmiðla sem eru á allt öðrum markaði og geta aflað sér tekna með allt öðrum hætti en Ríkisútvarpið. En það er búið að veikja stöðu stofnunarinnar. Það er búið að gera það með sveltistefnu þeirrar ríkisstjórnar sem hefur verið hér við völd undanfarin ár, sveltistefnu á ríkisfyrirtæki og á mörgum sviðum menningarlífsins. Skuldastaða stofnunarinnar er mjög alvarleg, hún hefur veikt og mun veikja stofnunina og það þarf að fara í alveg sérstakt átak til að styrkja Ríkisútvarpið. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt fram breytingartillögur við afgreiðslu fjárlaga á hverju einasta ári þar sem við höfum lagt til að fjármagn til Ríkisútvarpsins verði aukið, og ég veit að það hafa fleiri gert, og við höfum viljað standa vörð um Ríkisútvarpið.

Ég tel að við eigum að ljúka þessari yfirferð núna og 1. umr. um frumvarpið og vísa því síðan til hv. menntamálanefndar til skoðunar og þar eigi að halda áfram að vinna að málinu og gera það vel. Ég tel að Ríkisútvarpið og rekstur þess eigi að vera óbreyttur að sinni, að við eigum að vísa öllum hugmyndum um breytingar inn í næstu alþingiskosningar þegar sérhver flokkur verður búinn að leggja fram sína sýn, sína stefnu og að við leggjum það í hendur kjósenda að kjósa sér þá stefnu og flokk sem tekur tillit til Ríkisútvarpsins eins og annarra opinberra stofnana. Ég hvet til þess að hver einasti stjórnmálaflokkur taki málefni Ríkisútvarpsins sérstaklega fyrir í stefnuskrárvinnu sinni og kynningu fyrir næstu alþingiskosningar svo að kjósendur geti þá með atkvæðagreiðslu sinni og stuðningi við flokka sagt til um hvernig þeir sjái og vilji hafa Ríkisútvarpið í framtíðinni. Það á að ekki að hreyfa við Ríkisútvarpinu núna rétt fyrir kosningar. Það er stórhættulegt. Við eigum að vera það þroskuð að nota lýðræðislegar leiðir til að ná niðurstöðu í svona mikilvægu máli. Sporin hræða, hæstv. forseti, á svo mörgum sviðum í þeim fjölmörgu stofnunum sem teknar hafa verið úr ríkisrekstri og breytt í hlutafélög eða seldar. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum ekki staðið vörð um allar stofnanir og sagt að engu megi breyta og að ekki megi fara í innri skoðun til að sjá hvort viðkomandi stofnanir gætu ekki þjónað betur svo sem eins og … ja, það væri svo langur listi ef telja ætti það allt upp.

Ég hvet hæstv. menntamálaráðherra til að hlusta vel á framsöguerindin og hvet til þess að vinnan í menntamálanefnd verði málefnaleg og nefndin taki sér þann tíma sem hún þarf til að vinna vel að þessu máli. Afgreiðsla málsins verður svo í höndum kjósenda í vor.